The R&A - Working for Golf

Opinberu golfreglurnar

Golfreglurnar eru yfirgripsmiklar og veita svör við mörgum álitaefnum sem rísa í leik sem stundaður er um heim allan á margskonar golfvöllum og af leikmönnum á öllum getustigum.

Fletta í reglunum
Um leikmannaútgáfuna
Leikmannaútgáfa golfreglnanna er ætluð þér, kylfingnum. Hún inniheldur upplýsingar um þær aðstæður sem algengastar eru á vellinum og er stytt útgáfa golfreglnanna. Þótt textinn sé orðaður á ólíkan hátt veitir hann sömu svör og finna má í golfreglubókinni. Þannig er leikmannaútgáfan fullgild reglubók.

1


Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar

Tilgangur: Regla 1 lýsir eftirfarandi undirstöðuatriðum leiksins: Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggur. Leiktu samkvæmt reglunum og í anda leiksins. Þú ert ábyrgur fyrir að beita sjálfan þig vítum ef þú brýtur reglu, þannig að þú hagnist ekki gagnvart mótherja þínum í holukeppni eða gagnvart öðrum leikmönnum í höggleik.

Lesa meira

2


Völlurinn

Tilgangur: Regla 2 lýsir þeim grunnatriðum sem þú ættir að vita um völlinn: Á vellinum eru fimm skilgreind svæði, og Á vellinum eru nokkrar tegundir skilgreindra hluta og aðstæðna sem kunna að trufla leik þinn. Mikilvægt er að þekkja á hvaða svæði vallarins bolti þinn liggur því það hefur áhrif á hvaða reglur gilda við að leika boltanum og að taka lausn.

Lesa meira

3


Keppnin

Tilgangur: Regla 3 spannar þrjú grunnatriði allra golfkeppna: Keppt er í holukeppni eða í höggleik, Ýmist er leikið í einstaklingskeppni eða með samherja í liði, og Ýmist er fært brúttóskor (engum forgjafarhöggum er beitt) eða nettóskor (þar sem forgjafarhöggum er beitt).

Lesa meira

4


Útbúnaður leikmannsins

Tilgangur: Regla 4 fjallar um útbúnaðinn sem þú mátt nota þegar þú leikur umferð. Vegna þess grundvallaratriðis að golf er krefjandi leikur þar sem árangur á að ráðast af dómgreind, færni og hæfileikum þínum verður þú að: Nota leyfilegar kylfur og bolta, Nota mest 14 kylfur og mátt að öllu jöfnu ekki skipta um skemmdar eða týndar kylfur, og Sæta takmörkunum um notkun annars útbúnaðar sem er þér til aðstoðar við leik.

Lesa meira

5


Að leika umferðina

Tilgangur: Regla 5 fjallar um hvernig umferð er leikin, svo sem hvar og hvenær þú mátt æfa þig á vellinum fyrir umferð eða á meðan þú leikur umferð, hvenær umferð þín hefst og henni lýkur og hvað gerist þegar stöðva þarf leik eða hefja hann að nýju. Þér er ætlað að: Hefja hverja umferð á réttum tíma og Leika samfellt og rösklega á hverri holu þar til umferð þinni er lokið. Þegar komið er að þér að slá er mælst til að ekki líði meira en 40 sekúndur þar til þú slærð höggið og oftast styttri tími.

Lesa meira

6


Að leika holu

Tilgangur: Regla 6 fjallar um hvernig leika á holu, svo sem sérstöku ákvæðin um hvernig leikur hefst á holu, kröfuna um að sama bolta sé leikið alla holuna nema þegar boltaskipti eru leyfð, leikröð (sem skiptir meira máli í holukeppni en höggleik) og hvernig leik á holu er lokið.

Lesa meira

7


Leit að bolta: Að finna og þekkja bolta

Tilgangur: Regla 7 leyfir þér að viðhafa hóflegar athafnir til að leita að bolta þínum í leik eftir hvert högg. Þú þarft samt að fara varlega, því þú munt fá víti ef þú ferð óhóflega að og veldur betrumbótum á aðstæðum fyrir næsta högg þitt. Þú færð ekki víti þótt boltinn hreyfist af slysni þegar leitað er að honum eða reynt að þekkja hann, en verður þá að leggja boltann aftur á upphaflegan stað.

Lesa meira

8


Völlurinn leikinn eins og komið er að honum

Tilgangur reglu: Regla 8 lýsir einu grundvallaratriði leiksins: „Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum.“ Þegar bolti þinn stöðvast verður þú að öllu jöfnu að sætta þig við þær aðstæður sem hafa áhrif á höggið og mátt ekki bæta þær áður en þú leikur boltanum. Samt máttu framkvæma tilteknar hóflegar athafnir þótt þær bæti þessar aðstæður og undir ákveðnum kringumstæðum máttu endurgera aðstæðurnar vítalaust, eftir að þeim hefur verið breytt til betri eða verri vegar.

Lesa meira

9


Bolta leikið þar sem hann liggur. Kyrrstæðum bolta lyft eða hann hreyfður

Tilgangur: Regla 9 fjallar um eitt grundvallaratriði leiksins: „Leiktu boltanum eins og hann liggur.” Ef bolti þinn stöðvast og er síðan hreyfður úr stað af náttúruöflunum, svo sem vindi eða vatni, verður þú yfirleitt að leika boltanum frá nýja staðnum. Ef kyrrstæðum bolta þínum er lyft eða hann hreyfður af einhverjum, eða af utanaðkomandi áhrifum, áður en höggið er slegið, verður að leggja boltann aftur á upphaflegan stað. Þú ættir að fara varlega nærri kyrrstæðum bolta og ef þú veldur því að bolti þinn eða mótherja þíns hreyfist færðu yfirleitt víti (nema á flötinni).

Lesa meira

10


Að undirbúa og slá högg. Ráðlegging og aðstoð. Kylfuberar

Tilgangur: Regla 10 fjallar um hvernig eigi að undirbúa og slá högg, þar á meðal um ráðleggingu og aðra aðstoð sem þú mátt þiggja frá öðrum (svo sem kylfubera þínum). Undirstöðuatriðið er að golf er leikur færni og persónulegra áskorana.

Lesa meira

11


Bolti á hreyfingu hittir af slysni einstakling, dýr eða hlut. Vísvitandi athafnir til að hafa áhrif á bolta á hreyfingu

Tilgangur: Regla 11 fjallar um hvað eigi að gera ef bolti þinn er á hreyfingu og hittir einstakling, dýr, útbúnað eða annað á vellinum. Þegar þetta gerist óvart er það vítalaust og þú þarft oftast að sætta sig við afleiðingarnar, hvort sem þær eru hagstæðar þér eða ekki, og leika boltanum þar sem hann stöðvast. Samkvæmt reglunni máttu heldur ekki aðhafast neitt vísvitandi til að hafa áhrif á hvar bolti sem er á hreyfingu kunni að stöðvast.

Lesa meira

12


Glompur

Tilgangur: Regla 12 er sérregla fyrir glompur, sem eru sérstaklega útbúin svæði til að reyna á hæfni þína við að leika bolta úr sandi. Til að tryggja að þú takist á við þessa áskorun eru nokkrar takmarkanir á að snerta sandinn áður en þú slærð höggið og um hvar þú mátt taka lausn ef bolti þinn er í glompu.

Lesa meira

13


Flatir

Tilgangur: Regla 13 er sérregla um flatir. Flatir eru sérstaklega gerðar til að leika boltanum eftir jörðinni og einnig er flaggstöng í holunni á hverri flöt. Því gilda nokkrar sérreglur um flatir, frábrugðnar reglum fyrir aðra hluta vallarins.

Lesa meira

14


Ferli vegna bolta: Að merkja, lyfta, hreinsa og leggja aftur. Að láta falla innan lausnarsvæðis. Leikið af röngum stað

Tilgangur: Regla 14 fjallar um hvenær og hvernig þú mátt merkja staðsetningu kyrrstæðs bolta, lyfta boltanum og hreinsa hann og hvernig þú eigir að setja boltann aftur í leik þannig að honum verði leikið af réttum stað. Þegar þú átt að leggja aftur bolta sem hefur verið lyft eða verið hreyfður, verður þú að leggja sama boltann aftur á upphaflegan stað. Þegar þú tekur lausn, með eða án vítis, verður þú að láta skiptibolta eða upphaflega boltann falla á tilteknu lausnarsvæði. Áður en þú leikur boltanum máttu vítalaust leiðrétta mistök við beitingu þessara aðferða, en þú færð víti ef þú leikur boltanum frá röngum stað.

Lesa meira

15


Lausn frá lausung og hreyfanlegum hindrunum (þar á meðal boltum eða boltamerkjum sem aðstoða við eða trufla leik)

Tilgangur: Regla 15 fjallar um hvenær og hvernig þú mátt taka lausn án vítis frá lausung og hreyfanlegum hindrunum. Þessir hreyfanlegu náttúrulegu og manngerðu hlutir eru ekki taldir hluti af áskoruninni við að leika völlinn og í flestum tilvikum máttu fjarlægja þá þegar þeir trufla leik þinn. Þó þarftu að fara varlega við að hreyfa lausung nærri bolta þínum utan flatarinnar, því þú færð víti ef boltinn hreyfist við það.

Lesa meira

16


Lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum (þar á meðal óhreyfanlegum hindrunum). Hættulegar dýraaðstæður. Sokkinn bolti

Tilgangur: Regla 16 fjallar um hvenær og hvernig þú mátt taka lausn án vítis með því að leika bolta frá öðrum stað, svo sem þegar truflun er vegna óeðlilegra vallaraðstæðna eða hættulegra dýraaðstæðna. Þessar aðstæður eru ekki taldar hluti þeirrar áskorunar að leika völlinn og lausn án vítis er venjulega leyfð, annars staðar en innan vítasvæðis. Oftast tekur þú lausn með því að láta bolta falla innan lausnarsvæðis sem ákvarðast af nálægasta stað fyrir fulla lausn. Reglan fjallar einnig um lausn án vítis þegar bolti þinn er sokkinn í eigin boltafari á almenna svæðinu.

Lesa meira

17


Vítasvæði

Tilgangur: Regla 17 er sérregla fyrir vítasvæði, sem eru vatnasvæði eða önnur svæði skilgreind af nefndinni, þar sem boltar týnast oft eða eru ósláanlegir. Gegn einu vítahöggi máttu nota sérstakar lausnaraðferðir til að leika bolta utan vítasvæðisins.

Lesa meira

18


Fjarlægðarlausn. Bolti týndur eða út af. Varabolti

Tilgangur: Regla 18 fjallar um fjarlægðarlausn gegn víti. Ef bolti þinn er týndur utan vítasvæðis eða stöðvast út af er rofin sú nauðsynlega framvinda að leika af teignum þar til boltinn er í holu. Þú verður að endurvekja þessa framvindu með því að leika aftur þaðan sem þú slóst síðasta högg. Þessi regla fjallar einnig um hvernig og hvenær leika má varabolta til að flýta fyrir þegar bolti í leik kann að hafa hafnað út af eða týnst utan vítasvæðis.

Lesa meira

19


Ósláanlegur bolti

Tilgangur: Regla 19 útskýrir þá lausnarmöguleika sem þú hefur varðandi ósláanlegan bolta. Þú getur valið á milli nokkurra kosta, oftast gegn einu vítahöggi, til að losna úr erfiðum aðstæðum hvar sem er á vellinum (nema innan vítasvæðis).

Lesa meira

20


Að leysa úr álitamálum um reglurnar á meðan umferð er leikin. Úrskurðir dómara og nefndarinnar

Tilgangur: Regla 20 fjallar um hvað þú ættir að gera þegar spurningar vakna um reglurnar á meðan umferð er leikin, þar á meðal ferlin (sem eru ólík í holukeppni og höggleik) sem gefa þér kost á að gæta réttar þíns og að fá úrskurð síðar. Reglan fjallar einnig um hlutverk dómara sem er heimilað að úrskurða um staðreyndir og að beita reglunum. Úrskurðir dómara eða nefndarinnar eru bindandi fyrir alla leikmenn.

Lesa meira

21


Önnur form höggleiks og holukeppni einstaklinga

Tilgangur: Regla 21 fjallar um fjögur önnur leikform í keppni einstaklinga, þar á meðal þrjú form höggleiks þar sem skor ákvarðast á annan hátt en í venjulegum höggleik: Stableford (skor ákvarðast af punktum á hverri holu), hámarksskor (hámark er sett á skor hverrar holu) og par/skolli (skor samkvæmt holukeppni er notað á hverri holu).

Lesa meira

22


Fjórmenningur (einnig þekkt sem slegið til skiptis)

Tilgangur: Regla 22 fjallar um fjórmenning (sem er ýmist leikinn sem holukeppni eða höggleikur), þar sem tveir samherjar keppa saman sem lið með því að slá einn bolta til skiptis. Reglurnar fyrir þetta leikform eru að grunni til þær sömu og í einstaklingskeppni, nema að samherjarnir þurfa að slá teighögg til skiptis til að hefja leik á holu og ljúka síðan holunni með því að slá til skiptis.

Lesa meira

23


Fjórleikur

Tilgangur: Regla 23 fjallar um fjórleik (sem er ýmist leikinn sem holukeppni eða höggleikur), þar sem þú og samherji þinn keppið sem lið og hvor leikur sínum bolta. Skor liðsins á holu er lægra skor ykkar samherjanna á þeirri holu.

Lesa meira

24


Sveitakeppnir

Tilgangur: Regla 24 fjallar um sveitakeppnir (sem leiknar eru annaðhvort sem holukeppni eða höggleikur), þar sem margir leikmenn eða lið keppa sem sveit og samanlögð úrslit þeirra í umferðum eða leikjum mynda heildarskor sveitarinnar.

Lesa meira