The R&A - Working for Golf
Hlutverk nefndarinnar
Verklag nefnda
Fara í hluta
A
B
Skoða fleira

Hluti 2
1
Hlutverk nefndarinnar

Í golfreglunum er nefndin skilgreind sem sá einstaklingur eða hópur sem er í forsvari fyrir keppni eða völlinn. Nefndin er ómissandi til að leikur fari eðlilega fram. Nefndirnar bera ábyrgð á daglegum leik á vellinum og framkvæmd keppna, sem ætti alltaf að fara fram samkvæmt golfreglunum. Þessum hluta opinberu leiðbeininganna er ætlað að veita leiðbeiningar til nefndanna um hvernig þær geti best sinnt þessu hlutverki.

Þótt mörg verkefna nefndarinnar snúist um að halda skipulagðar keppnir er mikilvægur hluti ábyrgðar nefndarinnar að sjá um völlinn í almennum leik.

A
Almennur leikur

Jafnvel þegar keppnir eru ekki í gangi er mikilvægt að nefndin tryggi að kylfingar í almennum leik eða eigin keppnum geti fylgt golfreglunum. Í umfjöllun um verklag nefnda er þessi tegund leiks kölluð almennur leikur.

Í almennum leik er skipulag nefndarinnar oft óformlegra en í keppnum og í mörgum tilfellum fellur ábyrgð nefndarinnar á einn eða fleiri fulltrúa vallarins, svo sem kennara, vallarstjóra eða aðra starfsmenn. Meðal skyldna nefndarinnar eru:

 • Tryggja að völlurinn sé nægilega vel merktur (hluti 2).
 • Setja staðarreglur vegna almenns leiks (hluti 3).
 • Setja og framfylgja leikhraðareglum og hátternisreglum (hluti 4A).
 • Ákveða hvenær stöðva þurfi leik vegna veðurs eða annarra aðstæðna (hluti 4B).
 • Veita upplýsingar um reglurnar þegar leikmenn þurfa aðstoð vegna almenns leiks (hluti 4C).
B
Keppnir

Þegar nefndin ber ábyrgð á keppni hefur nefndin ákveðnar skyldur fyrir keppnina, á meðan á henni stendur og að henni lokinni til að tryggja að keppnin gangi liðlega fyrir sig og sé leikin samkvæmt golfreglunum.

Misjafnt er eftir völlum og keppnum úr hversu miklum aðföngum nefndir hafa að spila og því getur tiltekin nefnd e.t.v. ekki útfært allar tillögur sem hér koma fram. Í slíkum tilvikum verður nefndin að forgangsraða áherslum sínum fyrir hverja keppni.

Undirbúningur áður en keppni hefst er óumdeilanlega mjög mikilvægur svo að keppnin gangi vel fyrir sig. Skyldur nefndarinnar við undirbúning felast m.a. í:

 • Að ákveða skilmála keppninnar (hluti 5A).
 • Yfirfara og breyta merkingum vallarins (hluti 5B).
 • Yfirfara staðarreglur og hugsanlega setja viðbótarstaðarreglur (hluti 5C).
 • Skilgreina hvort og þá hvar leikmenn mega æfa á vellinum (hluti 5D).
 • Ákvarða teiga og holustaðsetningar sem á að nota (hluti 5E).
 • Stilla upp og auglýsa ráslista fyrir holukeppni og ráshópa fyrir höggleik, ásamt rástímum (hluti 5F).
 • Ákveða leikhraða- og hegðunarreglur (hlutar 5G og 5H).
 • Undirbúa efni fyrir leikmenn og dómara (hluti 5I).

Eftir að keppnin er hafin ber nefndin ábyrgð á að tryggja að leikmenn hafi nauðsynlegar upplýsingar til að leika samkvæmt reglunum og að aðstoða þá við að beita reglunum:

 • Dreifa upplýsingum til leikmanna svo þeim séu ljósar staðarreglur, leikhraðareglur og hegðunarreglur auk annarra mikilvægra upplýsinga, svo sem af hvaða teigum er leikið og hvar holur eru staðsettar (hluti 6A).
 • Ræsa leiki og ráshópa á réttum tíma (hluti 6A).
 • Tryggja að völlurinn sé settur upp við hæfi og að honum sé haldið við (hluti 6B).
 • Veita leikmönnum aðstoð vegna reglnanna (hluti 6C).
 • Framfylgja reglum sem hafa verið settar um leikhraða (hluti 6D).
 • Fresta leik vegna veðurs eða annarra aðstæðna og ákveða þá hvenær leikur mun hefjast að nýju (hluti 6E).
 • Koma upp svæði fyrir leikmenn til að tilkynna úrslit leikja eða til að skila skorkortum í höggleik (hluti 6F).
 • Yfirfara öll skor úr höggleiksumferðum (hluti 6F).
 • Ákvarða og auglýsa viðbótarupplýsingar um ráshópa og rástíma ef fleiri umferðir eru leiknar og slíkt hefur ekki þegar verið auglýst (hluti 6G).

Eftir að leik er lokið ber nefndin m.a. ábyrgð á að:

 • Útkljá jafntefli í höggleik (hluti 7A).
 • Staðfesta lokaúrslit og ljúka keppninni (hluti 7B).
 • Afhenda verðlaun (hluti 7C).
 • Greiða úr vandamálum sem hugsanlega koma upp eftir að keppninni er lokið (hluti 7D).