The R&A - Working for Golf
Að ákvarða skilmála keppninnar
Verklag nefnda
Fara í hluta
(1)
(2)
(3)
(4)
(5)
(6)
(7)
(8)
(9)
Skoða fleira

Hluti 5
Hluti 5B
5A
Að ákvarða skilmála keppninnar

Keppnisskilmálar ákvarða fyrirkomulag hverrar keppni, þar á meðal hverjir hafi þátttökurétt, hvernig og fyrir hvaða tíma þeir skrá sig, hver er tímaáætlun og form keppninnar og hvernig jafntefli verði útkljáð. Nefndin ber ábyrgð á að:

 • Ákveða skýra og ótvíræða skilmála fyrir hverja keppni.
 • Tryggja að þessir skilmálar séu aðgengilegir leikmönnum fyrir keppni.
 • Túlka skilmálana ef spurningar vakna.

Nefndin ætti ekki, nema í algjörum undantekningartilvikum, að breyta keppnisskilmálum eftir að keppnin er hafin.

Hver leikmaður ber ábyrgð á að þekkja keppnisskilmálana og að fylgja þeim.

Dæmi um orðalag keppnisskilmála má finna á vefsíðunni RandA.org.

(1)
Þátttökuréttur

Nefndin getur sett keppnisskilmála sem takmarka hverjir megi taka þátt í keppninni.

Kynjatakmarkanir

Keppni getur takmarkast við leikmenn af tilteknu kyni.

Aldursmörk

Keppni getur takmarkast við leikmenn á tilteknu aldursbili. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að taka fram við hvaða dagsetningu er miðað. Til dæmis:

 • Í unglingakeppni þar sem leikmenn mega ekki vera eldri en 18 ára gætu keppnisskilmálar kveðið á um að leikmaður þurfi að vera 18 ára eða yngri á fyrsta degi keppninnar eða á öðrum degi svo sem á áætluðum lokadegi keppninnar.
 • Í öldungakeppni þar sem leikmenn þurfa að vera 55 ára eða eldri gætu keppnisskilmálar kveðið á um að leikmenn þurfi að hafa átt 55 ára afmæli á eða fyrir fyrsta dag keppninnar.

Áhugamenn og atvinnumenn

Keppni getur takmarkast við áhugamenn eingöngu, atvinnumenn eingöngu eða verið opin öllum leikmönnum. Þegar keppni er opin öllum ætti nefndin að tryggja að áhugamenn gefi sig fram og afsali sér öllum peningaverðlaunum áður en keppnin hefst.

Forgjafarmörk

Nefndin getur sett takmarkanir og/eða mörk á forgjöf leikmanna eða beitingu forgjafar í keppni. Þar á meðal:

 • Sett efri eða neðri mörk á forgjöf.
 • Í liðakeppnum, svo sem fjórmenningi eða fjórleik:
  • Ákveðið hámarksmun forgjafar hjá samherjum. Nefndin getur einnig valið að lækka forgjöf þess leikmanns sem er með hærri forgjöf til að uppfylla kröfurnar.
  • Ákveðið hámark samtölu forgjafar hjá samherjum. Nefndin getur einnig valið að lækka forgjöf annars eða beggja leikmannanna til að uppfylla kröfurnar.
 • Þegar keppni samanstendur af mörgum umferðum, þar sem forgjöf leikmanns getur breyst á milli umferða, ákveða hvort hver keppandi muni leika alla keppnina með upphaflegri forgjöf eða hvort keppandinn muni nota uppfærða forgjöf fyrir hverja umferð.

Búseta og félagsaðild

Nefndin getur takmarkað þátttöku við leikmenn sem búa í eða fæddust í tiltekinni sýslu, ríki, landi eða öðru landfræðilegu svæði. Hún getur einnig krafist að leikmenn séu félagar í tilteknum klúbbi, samtökum eða golfsambandi.

 
(2)
Skilmálar um skráningu og dagsetningar

Tilgreina ætti hvernig og á hvaða tímabili leikmenn eigi að skrá sig.

Dæmi:

 • Aðferð við skráningu, svo sem að fylla út form á netinu, skila skráningu í pósti eða skrá nöfn á skráningarblað einhvern tíma fyrir rástíma leikmannsins.
 • Hvernig og hvenær eigi að greiða þátttökugjald.
 • Hvenær skráning þarf að vera móttekin. Nefndin getur hætt móttöku skráninga á ákveðnum degi eða leyft leikmönnum að skrá sig fram að leikdegi.
 • Aðferð sem verður notuð við að velja þátttakendur þegar of margir skrá sig, svo sem að velja þá þátttakendur sem skráðu sig fyrst, með undankeppni eða velja þátttakendur með lægstu forgjöf.
(3)
Form, þar á meðal veitt forgjöf

Tilgreina ætti eftirfarandi atriði varðandi form keppninnar, eftir þörfum:

 • Leikdagar eða, ef um holukeppni er að ræða yfir lengri tíma, dagsetningu þegar hverjum leik þarf að vera lokið.
 • Leikform (til dæmis holukeppni, höggleikur, eða höggleikur sem undanfari holukeppni).
 • Fjöldi og röð hola í umferð.
 • Fjöldi umferða, þar á meðal hvort niðurskurði verði beitt.
 • Ef um niðurskurð er að ræða, hvenær hann fer fram, hvort allir sem eru jafnir í síðasta sæti komist áfram og hversu margir leikmenn muni halda leik áfram í síðari umferðum.
 • Af hvaða teigum verði leikið.
 • Úthlutun forgjafar, þar á meðal holuröð þar sem forgjafarhögg verða veitt eða gefin.
 • Ef um marga riðla er að ræða, hvernig raðað verður í riðla, sjá hluta 5F(1).
 • Verðlaun (þar á meðal takmarkanir á viðtöku verðlauna). Í keppnum áhugamanna ætti nefndin að tryggja að verðlaun til áhugamannanna séu í samræmi við það sem leyft er í áhugamannareglunum og að áhugamenn afsali sér rétti til verðlauna sem kunna að vera hærri en áhugamannareglurnar leyfa.
(4)
Skilmálar vegna annarra leikforma

Breyttar aðferðir við skor

Þegar leika á Stableford, hámarksskor eða par/skolla kunna keppnisskilmálar að þurfa tiltekna hluti í tengslum við útreikning punkta eða hámarksfjölda högga sem leikmaður getur fengið á hverri holu.

Stableford

Stableford er leikform í höggleik þar sem leikmenn fá punkta á hverri holu með samanburði skors leikmannsins við fast viðmiðunarskor á holunni. Fasta viðmiðunarskorið er par nema nefndin ákveði annað (sjá reglu 21.1b).

Ef nefndin ákveður annað viðmiðunarskor getur hún ákveðið í keppnisskilmálum að það sé skolli, fugl eða eitthvað annað fast skor.

Hámarksskor

Þegar leikformið er hámarksskor ættu keppnisskilmálar að tilgreina hámarksfjölda högga sem leikmaður getur skorað á hverri holu (sjá reglu 21.2).

Hámarkið má setja á einhvern eftirfarandi vegu:

 • Sem viðmið við par, til dæmis tvöfalt par.
 • Sem fasta tölu, svo sem 8, 9 eða 10.
 • Sem viðmið við forgjöf leikmannsins, svo sem nettó skramba

Þegar ákveða á hvert hámarkið ætti að vera í hámarksskorkeppnum ætti nefndin að huga að eftirfarandi:

 • Hámarkspar á holunum sem leika á. Til dæmis á par 3 holu velli kynni að vera viðeigandi að setja hámarksskor á holu fast við sex högg. Hins vegar ef á vellinum eru par 5 holur væru sex högg sem hámarksskor óeðlilega lágt.
 • Geta leikmannanna sem taka þátt í keppninni. Til dæmis í nýliðakeppnum ætti hámarksskorið að vera hæfilegt til að gefa leikmönnum raunhæft tækifæri á að ljúka holunni en þó þannig að þeir séu hvattir til að hætta leik á holu þegar þeir lenda í miklum vandræðum.
 • Hvort skor eigi að gilda til forgjafar. Ef nefndin vill að keppnin gildi til forgjafar ætti hámarksskor á holu að vera nettó skrambi eða hærra.

Par/skolli

Þegar leikformið er par/skolli ættu keppnisskilmálar að tilgreina fasta skorið sem leikmenn bera skor sitt á holu við til að ákvarða hvort leikmaðurinn vinnur eða tapar holu. Í par keppnum væri fasta skorið að jafnaði par og í skolla keppnum að jafnaði skolli (eitt högg yfir pari).

Önnur leikform

Mörg önnur leikform eru til, svo sem Scrambles og Greensomes. Sjá hluta 9 og/eða vefsíðuna RandA.org varðandi frekari upplýsingar um þessi og önnur leikform.

Sveitakeppnir

Þegar leikformið felur í sér sveitakeppni ætti nefndin að íhuga hvort setja þurfi viðbótarskilmála. Dæmi:

 • Takmarkanir varðandi þjálfara eða ráðgjafa (sjá fyrirmyndir staðarreglna, hluta 8H).
 • Í holukeppni:
  • Hvort ásættanlegt er að leikir endi jafnir eða hvort alltaf eigi að leika þar til sigurvegari liggur fyrir.
  • Fjöldi stiga fyrir sigur eða jafntefli.
  • Ef sumum leikjum er lokið en ekki er hægt að ljúka öðrum á tilskyldum degi vegna myrkurs eða veðurs ættu keppnisskilmálar að tilgreina hvernig farið verði með úrslit leikjanna. Til dæmis getur nefndin ákveðið að úrslit leikja sem er lokið standi en aðrir leikir endi með jafntefli eða verði leiknir að nýju síðar. Eða að leika eigi alla leiki að nýju og að breyta megi frá upphaflegri liðsskipan.
  • Hvor ljúka eigi leikjum sem enn eru í gangi þegar sveit hefur unnið viðureign eða keppni.
 • Í höggleik:
  • Fjöldi skora sem telja í heildarskori hverrar sveitar.
  • Ef skor sem eiga að gilda byggja á 18 holum eða með samanburði einstakra hola.
 • Hvernig útkljá eigi jafntefli í heildarkeppninni, til dæmis með umspili, samanburði skorkorta eða með því að taka mið af skorum sem ekki töldu.
(5)
Hvenær skorkorti hefur verið skilað

Í höggleik eru leikmenn ábyrgir, samkvæmt reglu 3.3b, fyrir að tryggja nákvæmni skors síns og að skila skorkortinu strax eftir að umferðinni lýkur.

Nefndin ætti að upplýsa leikmenn um hvar skila eigi skorkortunum, tryggja að einhver sé tiltækur til að leysa úr hugsanlegum álitamálum sem leikmennirnir kunna að bera upp um reglurnar og að lokum að yfirfara skorin.

Ef mögulegt er ætti að útbúa kyrrlátt afmarkað svæði fyrir leikmennina til að yfirfara skor sín, ræða við meðlimi nefndarinnar eftir þörfum og skila skorkortunum.

Tilgreina hvenær skorkorti telst skilað

Nefndin ætti að tilgreina hvenær skorkortinu telst skilað. Eftirfarandi eru nokkrir möguleikar:

 • Skilgreina skilasvæði skorkorta og leyfa leikmanni að breyta skorkortinu þar til hann yfirgefur svæðið. Þetta þýddi að jafnvel þótt leikmaðurinn hafi afhent dómara eða starfsmanni skorkortið væri samt hægt að breyta því ef leikmaðurinn er enn innan svæðisins.
 • Útvega kassa sem leikmennirnir geta sett skorkortin í og þeim telst þá skilað um leið og leikmennirnir hafa sett þau í kassann. Þessi leið býður frekar heim hættunni á að leikmenn skili röngum skorkortum en kann að vera besta útfærslan ef fáir starfsmenn eru til reiðu eða ef margir leikmenn ljúka leik á sama tíma (til dæmis þegar ræst er út af öllum teigum).

Að óska eftir að leikmenn skrái aðrar upplýsingar á skorkort

Nefndin getur óskað eftir því að leikmenn aðstoði nefndina með því að ljúka verkefnum í tengslum við frágang skorkorta, sem eru á ábyrgð nefndarinnar. Nefndin má ekki beita vítum samkvæmt golfreglunum þótt leikmaður sinni ekki þessum óskum eða verði á mistök, en nefndin getur beitt agaviðurlögum gagnvart leikmanni sem endurtekið sinnir ekki slíkum óskum. Til dæmis getur nefndin óskað eftir að leikmenn:

 • Leggi saman skorið eða, í fjórleikskeppni, ákvarði hvaða skor gildir fyrir liðið.
 • Skrái á skorkortið fjölda punkta á hverri holu í Stableford keppni.
 • Skrái hvort hola vannst, tapaðist eða var jöfn í par eða skolla keppnum.
 • Skrái tilteknar upplýsingar á skorkortið, svo sem nafn, dagsetningu og heiti keppninnar.

Á sama hátt getur nefndin óskað eftir að leikmenn aðstoði nefndina með því að skrá skorið inn í tölvukerfi í lok umferðar, en ekki ætti að refsa leikmanninum samkvæmt golfreglunum þótt hann sinni ekki slíkum óskum eða geri mistök. Þó getur nefndin beitt agaviðurlögum, til dæmis í hegðunarreglum, gagnvart leikmanni sem endurtekið sinnir ekki slíkum óskum.

(6)
Hvernig jafntefli eru útkljáð

Í holukeppni og höggleik er hægt, með keppnisskilmálum, að breyta því hvernig jafntefli eru útkljáð.

Holukeppni

Ef leikur er jafn eftir lokaholuna er leikurinn framlengdur um eina holu í einu þar til sigurvegari liggur fyrir (sjá reglu 3.2a(4)), nema keppnisskilmálar kveði á um annað.

Keppnisskilmálar ættu að tilgreina hvort leik getur lokið með jafntefli eða ef umspil eigi að fara fram með öðrum hætti en fram kemur í reglu 3.2a(4). Meðal möguleika er eftirfarandi:

 • Leikurinn endar með jafntefli.
 • Leikurinn er framlengdur á annarri holu en fyrstu holu.
 • Leikið verður umspil á tilteknum fjölda hola (svo sem 9 eða 18 holur).

Í holukeppni með forgjöf ætti að nota forgjafarröð hola til að ákvarða á hvaða holum forgjöfin er veitt eða þegin við leik viðbótarholanna, nema keppnisskilmálar kveði á um annað.

Jafntefli í holukeppni ætti ekki að útkljá með umspili í höggleik.

Höggleikur

Keppnisskilmálar ættu að tilgreina hvort höggleikskeppni geti endað með jafntefli eða hvort leika eigi umspil eða bera saman skorkort til að ákvarða sigurvegara og raða í önnur sæti.

Jafntefli í höggleik ætti ekki að útkljá með holukeppni.

Umspil í höggleik.

Ef leika á umspil í höggleik ættu keppnisskilmálar að ákvarða eftirfarandi:

 • Hvenær umspilið verður haldið, til dæmis að það hefjist á ákveðnum tíma, eins fljótt og hægt er eftir að síðasti ráshópur lýkur leik eða síðar.
 • Hvaða holur verða leiknar í umspilinu.
 • Fjöldi hola sem leikinn verður í umspilinu, til dæmis að leikinn verði bráðabani eða, ef leika á fleiri holur, svo sem 2, 4 eða 18, og hvað eigi að gera ef þá er enn jafntefli.
 • Í venjulegum höggleik með forgjöf, ef umspilið er styttra en 18 holur ætti fjöldi hola að ákvarða höggafjölda sem leikmaður fær í forgjöf. Til dæmis, ef ein hola er leikin ætti að draga 1/18 af forgjöfinni frá skorinu á umspilsholunni. Meðhöndlun brota ætti að vera samkvæmt reglum eða leiðbeiningum forgjafarkerfisins.
 • Í umspili í forgjafarkeppnum þar sem tafla með holuröð er notuð, svo sem í fjórleik, par/skolla og Stableford keppnum, ætti að beita forgjafarhöggum á umspilsholunum eins og þeim var úthlutað í keppninni, samkvæmt töflunni með holuröð.
 • Leikmenn þurfa einungis að skila skorkortum vegna umspilsins ef nefndin afhendir þeim skorkort.

Samanburður skorkorta

Ef umspil er ekki fýsilegt geta keppnisskilmálar kveðið á um að jafntefli séu útkljáð með samanburði skorkorta. Jafnvel þótt sigurvegari sé ákvarðaður með umspili má nota samanburð skorkorta til að raða í önnur sæti. Í lýsingu á aðferðinni við samanburð skorkorta ætti einnig að koma fram hvað gert verði ef aðferðin leiðir ekki til niðurstöðu um sigurvegara.

Ein aðferð við samanburð skorkorta er að ákveða sigurvegara á grunni besta skors í síðustu umferð. Ef leikmennirnir sem eru jafnir hafa sama skor í síðustu umferð, eða ef um eina umferð er að ræða, ræðst sigurvegarinn af skori á síðustu níu holunum, síðustu sex holunum, síðustu þremur holunum og að lokum af átjándu holunni. Ef enn er jafnt ræðst sigurvegarinn af síðustu sex holunum, síðustu þremur holunum og síðustu holunni á fyrri níu holunum. Ef umferðin er styttri en 18 holur má aðlaga fjölda holanna sem notaður er við samanburðinn.

Leiði þessi aðferð ekki til niðurstöðu getur nefndin lýst yfir jafntefli eða ákveðið sigurvegara með hlutkesti (til dæmis með því að kasta upp smámynt).

Samanburður skorkorta er stundum kallaður skorkortaumspil.

Önnur atriði til íhugunar:

 • Ef þessi aðferð er notuð í keppni þar sem ræst er út af fleiri en einum teig er mælt með að í stað orðalagsins „síðustu níu holur, síðustu sex holur o.s.frv.“, sé sagt holur 10-18, 13-18 o.s.frv.
 • Í keppnum með forgjöfum þar sem tafla með röðun forgjafarhögga er ekki notuð, svo sem í höggleik einstaklinga, ef aðferðin með síðustu níu, síðustu sex, síðustu þrjár holurnar er notuð ætti að draga helming, einn þriðja, einn sjötta o.s.frv. frá skori á þessum holum. Meðhöndlun brota ætti að vera samkvæmt reglum eða leiðbeiningum forgjafarkerfisins.
 • Í keppnum með forgjöf þar sem tafla með röðun forgjafarhögga er notuð, svo sem í fjórleik höggleiks, par/skolla og Stableford keppnum ætti að deila forgjafarhöggum eins og þeim var úthlutað í keppninni.
(7)
Hvenær úrslit keppninnar eru endanleg

Mikilvægt er að nefndin skýri í keppnisskilmálum hvenær og hvernig úrslit keppninnar eru endanleg því þetta hefur áhrif á hvernig nefndin mun leysa úr álitamálum um reglurnar eftir að leik er lokið, bæði í holukeppni og höggleik (sjá reglu 20).

Holukeppni

Eftirfarandi eru dæmi um hvernig ákvarða má í keppnisskilmálum hvenær úrslit í holukeppni eru endanleg:

 • Þegar úrslitin er skráð á opinbera skortöflu eða á annan tilgreindan hátt, eða
 • Þegar úrslitin eru tilkynnt til einstaklings sem tilnefndur hefur verið af nefndinni.

Ef úrslit leiks teljast endanleg þegar þau hafa verið skráð á opinbera skortöflu kann nefndin að vera ábyrg fyrir að skrá nafn sigurvegarans á skortöfluna eða getur falið leikmönnum að gera það. Í sumum tilvikum er opinbera skortaflan áberandi mannvirki og í öðrum tilvikum kann hún að vera blað í golfbúðinni eða búningsklefa.

Ef dómari hefur verið tilnefndur af nefndinni til að fylgja leik í holukeppni telst yfirlýsing dómara um úrslit leiks á flöt síðustu holu ekki vera opinber tilkynning, nema slíkt hafi verið ákvarðað í keppnisskilmálum.

Höggleikur

Eftirfarandi eru dæmi um hvernig ákvarða má í keppnisskilmálum hvenær keppni er lokið í höggleik:

 • Þegar öll úrslit hafa verið skráð á skortöflu eða tilkynningatöflu.
 • Þegar sigurvegarar hafa verið kynntir við verðlaunaafhendingu.
 • Þegar verðlaunagripur hefur verið afhentur.

Í höggleik sem undanfara holukeppni kveður regla 20.2e(2) á um að höggleikshluta keppninnar sé lokið þegar leikmaður hefur slegið af teig til að hefja fyrsta leik sinn í holukeppninni.

(8)
Skilmálum keppni breytt eftir að keppni er hafin

Keppnisskilmálarnir ráða fyrirkomulagi keppninnar og því má aðeins breyta skilmálunum eftir að keppni er hafin í algjörum undantekningartilvikum.

Eftirfarandi er dæmi um aðstæður þar sem keppnisskilmálum ætti ekki að breyta:

 • Þar sem leikmenn hefja umferð í þeirri trú að leika eigi tiltekinn fjölda hola og kunna að skipuleggja leik sinn samkvæmt því ætti ekki að breyta holufjöldanum í umferðinni eftir að umferðin er hafin. Til dæmis ef slæmt veður veldur því að leik er frestað eftir að allir leikmenn hafa lokið níu holum af átján ætti nefndin ekki að tilkynna úrslit samkvæmt þessum níu holum.

Eftirfarandi eru dæmi um aðstæður þar sem mjög sérstakar kringumstæður réttlæta breytingu á keppnisskilmálum:

 • Ef aðstæður, svo sem slæmt veður, hafa áhrif á hversu margar umferðir er hægt að leika, eða hversu margar holur er hægt að leika í umferðum sem ekki eru hafnar, má breyta þeim til að taka tillit til aðstæðnanna. Á sama hátt ef þessar aðstæður valda því að ekki sé hægt að fylgja fyrirhuguðu skipulagi má breyta keppnisfyrirkomulaginu.
 • Aðferðinni við að útkljá jafntefli ætti ekki að breyta nema í algjörum undantekningartilvikum. Til dæmis, ef ætlunin var að halda 18 holu umspil en veður kemur í veg fyrir að það sé hægt má breyta aðferðinni með því að fækka holum eða með því að nota samanburð skorkorta.
(9)
Lyfjamisnotkun

Í keppnisskilmálum getur þess verið krafist að leikmenn uppfylli reglur gegn lyfjamisnotkun. Það er á hendi nefndarinnar að útbúa og túlka eigin reglur gegn lyfjamisnotkun, þótt leiðbeiningar um gerð slíkra reglna séu yfirleitt fáanlegar hjá íþróttayfirvöldum.