The R&A - Working for Golf
Merking vallarins
Verklag nefnda
Fara í hluta
(1)
(2)
(3)
(4)
(5)
(6)
Skoða fleira

Hluti 5A
Hluti 5C
5B
Merking vallarins

Við undirbúning keppni ætti nefndin að tryggja að völlurinn sé nægilega vel merktur og breyta eða endurbæta merkingar sem notaðar eru við almennan leik. Þótt oftast sé engin ein „rétt“ leið við að merkja völl, getur skortur á merkingum leitt til aðstæðna þar sem leikmanni er ófært að fylgja reglunum eða að nefndin sé neydd til að taka ákvarðanir á meðan leikur stendur yfir sem gætu leitt til þess að leikmenn séu ekki jafnir gagnvart reglunum.

Í hluta 2 eru ítarlegar leiðbeiningar og ráðleggingar um hvernig merkja eigi völlinn fyrir almennan leik. Það efni á jafnt við um merkingar fyrir keppni og ætti að hafa til hliðsjónar þegar keppnir eru undirbúnar.

Ef merkingum vallarins er breytt fyrir keppni ætti nefndin að gæta þess að koma því skýrt á framfæri við leikmenn sem kunna að leika reglulega á vellinum, til að forðast misskilning og að leikmenn fari óvart rangt að.

Til viðbótar upplýsingunum í hluta 2 kann nefndin að vilja huga að eftirfarandi atriðum:

(1)
Út af

Nefndin ber ábyrgð á að tryggja að öll vallarmörk séu vel merkt. Góð venja er að mála litla hvíta hringi utan um allar hvítar stikur eða aðra vallarmarkahluti sem hægt er að hreyfa á meðan leikur stendur yfir svo hægt sé að setja þá aftur á sama stað. Ef línur eða málningardoppur eru notaðar til að merkja vallarmörk ætti að halda þeim við þannig að þau séu auðsjáanleg. Staðarreglurnar ættu að skýra öll vallarmörk sem eru skilgreind á annan hátt en með stikum eða girðingum (sjá fyrirmynd staðarreglu A-1).

(2)
Vítasvæði

Nefndin kann að vilja endurmeta merkingar á sumum eða öllum vítasvæðum fyrir keppni.

  • Vítasvæði sem innihalda vatnasvæði ætti ekki að gera hluta af almenna svæðinu, en breyta má mörkum þeirra.
  • Fjarlægja má önnur vítasvæði eða bæta við vítasvæðum, eða færa jaðra vítasvæðanna til að breyta því hversu erfið holan er, svo sem ef nefndin telur viðeigandi að auka refsingu fyrir slæm högg. Til dæmis getur nefndin ákveðið að merkja þétt skógarsvæði sem vítasvæði í almennum leik en ekki í keppnum. Gæta þarf þess að slíkum breytingum sé komið skýrt á framfæri til leikmanna sem kunna að leika reglulega á vellinum, til að forðast misskilning og að leikmenn fari óvart rangt að.
  • Þegar vítasvæðum er bætt við eða þau fjarlægð ætti nefndin að taka mið af reglum og ábendingum sem kunna að koma fram í forgjafarkerfinu til að meta hvort breytingarnar hafi áhrif á vallarmat.
  • Breyta má lit sumra vítasvæða úr rauðu í gult og öfugt. Í sumum keppnum gæti til dæmis verið ákjósanlegt að merkja vítasvæði nærri flöt gult ef nefndin vill ekki leyfa þann möguleika að láta bolta falla flatarmegin við vítasvæði þegar bolti hefur rúllað til baka inn í vítasvæðið. Í sumum tilfellum getur einnig verið skynsamlegt að setja fallreit sem viðbótarkost, svo sem vegna flatar á eyju þar sem leikmenn þurfa að slá löng högg yfir vatn.
  • Í almennum leik kunna að vera tiltölulega fáar stikur á vellinum til að merkja vítasvæði. Einnig geta stikur hafa horfið sem getur leitt til þess að hlutar vítasvæðis eru utan merkta svæðisins. Fara ætti yfir allar stikur fyrir keppni og bæta við stikum ef þörf krefur til að tryggja að vítasvæðin séu merkt á fullnægjandi hátt fyrir keppnina.
  • Góð venja er, þegar aðstæður leyfa, að mála rauðar eða gular línur umhverfis vítasvæðin í stað þess að reiða sig eingöngu á stikur. Línur tryggja að rétt svæði séu innan og utan vítasvæðisins, jaðrarnir munu ekki breytast þótt stika hverfi og leikmaður á auðvelt með að ákvarða hvar hann eigi að taka lausn. Venjulega þarf færri stikur þegar lína hefur verið máluð.
(3)
Glompur

Á flestum völlum ætti nefndin ekki að þurfa að gera neitt sérstakt til að undirbúa glompur fyrir keppni. Raka ætti glompurnar að morgni keppninnar og ganga ætti frá hrífum þar sem nefndin kýs (sjá hluta 2D). Ef jaðrar glompanna eru óskýrir ætti nefndin að hugleiða hvort hægt sé að skýra þá betur (annaðhvort af vallarstarfsmönnum eða með staðarreglu) til að forðast misskilning hjá leikmönnum og dómurum.

(4)
Óeðlilegar vallaraðstæður og hlutar vallar

Nefndin ætti að fara yfir allan völlinn til að tryggja að öll svæði sem ættu að vera grund í aðgerð séu vel merkt. Einnig ætti að skýra stöðu allra hindrana eða hluta vallar í staðarreglum (sjá fyrirmynd staðarreglu F-1).

Best er ef nefndin merkir alla grund í aðgerð áður en keppnin hefst. Þó getur nefndin skilgreint svæði sem grund í aðgerð á meðan umferð í holukeppni eða höggleik er leikin, ef aðstæður kalla á það.

Þegar lausn er veitt frá slíkum ómerktum svæðum á meðan umferð er leikin ætti nefndin að merkja svæðið sem grund í aðgerð eins fljótt og hægt er til að tryggja að öllum öðrum leikmönnum á vellinum sé ljós breytt staða svæðisins.

(5)
Bannreitir

Ef einhverjir bannreitir eru á vellinum ætti nefndin að tryggja það þeir séu vel merktir. Nefndin kann einnig að vilja setja upp sérstakar auglýsingar við bannreitina til að tryggja að leikmönnum sé ljóst að þeir megi ekki leika þaðan.

(6)
Tímabundnar hindranir
Í keppnum er hugsanlegt að mannvirki svo sem tjöld eða áhorfendastúkur séu reistar. Staða slíkra mannvirkja þarf að vera skýrð í staðarreglum, annaðhvort sem óhreyfanlegar hindranir eða tímabundnar óhreyfanlegar hindranir (TÓH). Ef mannvirkin eru skilgreind sem TÓH ætti að nota staðarregluna um tímabundnar óhreyfanlegar hindranir (sjá fyrirmynd staðarreglu F-23). Staðarreglan veitir leikmanni viðbótarmöguleika á lausn þannig að hann þurfi ekki að leika fram hjá eða yfir hindrunina.