The R&A - Working for Golf
Ráslisti, ráshópar og rástímar
Verklag nefnda
Fara í hluta
(1)
(2)
(3)
(4)
Skoða fleira

Hluti 5E
Hluti 5G
5F
Ráslisti, ráshópar og rástímar
(1)
Ráslistinn

Í holukeppnum er ráslistinn notaður til að stilla upp keppnistrénu í heild sinni og hvaða leikmenn muni mætast í leikjum fyrstu umferðar. Dráttinn má framkvæma á ýmsa vegu, svo sem:

  • Með hendingu – Leikmenn eru dregnir út með hendingu og raðað á listann í þeirri röð sem þeir dragast.
  • Undankeppni – Leikmenn ættu að leika eina eða fleiri umferðir í undankeppni. Leikmönnunum er svo raðað á listann eftir skori.
  • Forgjöf – Leikmönnum er raðað á listann eftir forgjöf þannig að leikmaðurinn með lægstu forgjöfina myndi leika við þann með hæstu forgjöfina í fyrstu umferð, sá með næst lægstu forgjöfina við þann með þá næst hæstu og svo framvegis.
  • Forgangur – Ákveðnum leikmönnum, svo sem ríkjandi sigurvegara, er raðað á ákveðna staði á listanum en öðrum samkvæmt hendingu eða með undankeppni.

Listanum ætti að raða þannig að tveir efstu leikmennirnir séu sitt hvoru megin á listanum og svo áfram þannig niður listann, eins og hér kemur fram.

Við röðun á keppnislista er hægt að skera úr um jafntefli í undankeppni, fyrir önnur sæti en það síðasta, þannig:

  • Í hvaða röð skorum var skilað, þannig að fyrsta skor sem var skilað fái lægsta lausa númer og svo framvegis.
  • Samanburður skorkorta.
  • Handahófsúrdráttur meðal leikmannanna sem voru jafnir á tilteknu skori.

Ef fleiri en einn leikmaður eru jafnir í lokasæti úrdráttarins getur nefndin kosið að hafa umspil eða bæta við annarri umferð í holukeppni til að fækka keppendum í jafna tölu. Þetta ætti að koma fram í keppnisskilmálum.

Í sumum keppnum kann nefndin að velja að fastsetja ríkjandi titilhafa. Þegar þetta er gert er ríkjandi titilhafi oft settur í fyrsta eða annað sæti. Nefndin ætti einnig að ákveða hvort hún muni leyfa titilhafanum að leika í undankeppni og, ef það er leyft, hvort hann fyrirgeri þar með fastri röðun.

Margir drættir (riðlar eða deildir)

Þótt í mörgum keppnum leiki allir leikmenn við alla aðra leikmenn getur nefndin stundum valið að skipta keppninni upp í riðla eða deildir. Tilgangurinn getur til dæmis verið að leikmenn á svipuðu getustigi keppi hver við annan eða að fá fram fleiri en einn sigurvegara.

Röðun í slíka riðla getur verið eftir forgjöf, undankeppni eða gerð með öðrum aðferðum sem nefndin ákvarðar. Nefndin ætti að tilgreina fyrirkomulag röðunarinnar í keppnisskilmálum.

Þótt raða megi í riðlana eftir forgjöf þarf keppnin sjálf innan riðlanna ekki að vera forgjafarkeppni, því allir leikmennirnir ættu að vera á svipuðu getustigi.

Í holukeppni er skynsamlegt að hafa fjölda leikmanna þannig að ekki þurfi að koma til yfirsetu og helst þannig að allir leikmenn leiki jafn marga leiki í útsláttarkeppni, svo sem 8, 16, 32, 64 eða 128. Ef ekki er nægur fjöldi leikmanna til að fylla lokariðilinn ættu leikmenn að fá yfirsetu í fyrstu umferð eftir þörfum. Ekki er nauðsynlegt að sami fjöldi leikmanna sé í öllum riðlum. Til dæmis gæti fyrsti riðillinn haft 32 leikmenn en aðrir riðlar 16 leikmenn.

(2)
Rástímar og ráshópar

Nefndin getur ákvarðað rástíma og ráshópa eða leyft leikmönnum að velja sér rástíma.

Þegar nefndin leyfir leikmönnum að velja sér rástíma hefur slíkur rástími sömu stöðu og rástími sem nefndin hefur ákveðið (sjá reglu 5.3a).

Að mörgu er að hyggja við að ákveða fjölda leikmanna í ráshópi og tíma á milli ráshópa. Þegar rástímar og ráshópar eru ákveðnir er mikilvægt að taka tillit til leikhraða, auk þess tíma sem er aflögu til leiks. Tveggja manna ráshópar munu leika hraðar en þriggja eða fjögurra manna ráshópar. Bil á milli rástíma getur verið styttra fyrir smærri ráshópa. Þegar nefndin velur að ræsa leikmenn af fleiri en einum teig (svo sem á 1. og 10. holu) er mikilvægt að tryggja að leikmenn þurfi ekki að bíða lengi ef þeir koma að hinum teignum áður en síðasti ráshópur hefur verið ræstur.

Þegar holukeppni verður leikin yfir lengri tíma og leikmönnum er heimilt að komast að samkomulagi um hvenær þeir leiki á því tímabili ætti nefndin að:

  • Ákveða lokadagsetningu þar sem hverjum leik þarf að vera lokið.
  • Ákveða hvernig úrslit leiks verða ákvörðuð ef leikmenn ljúka leiknum ekki á réttum tíma, svo sem með frávísun beggja leikmannanna eða með því að hleypa fyrri leikmanninum eða seinni leikmanninum á ráslistanum áfram í næstu umferð.

Í holukeppni setur nefndin upp ráslistann sem sýnir hverjir muni mætast í hverjum leik eða ákveður á annan hátt hvernig leikjum er stillt upp. Best er ef hægt er að ræsa út hvern leik fyrir sig, en stundum kunna tveir leikir að vera ræstir út saman.

(3)
Ritarar

Í höggleik þarf leikmaður eða lið alltaf að hafa einhvern annan en leikmanninn eða liðsfélaga til að skrá skorkortið. Nefndin getur ákveðið eða takmarkað hverjir megi vera ritarar fyrir hvern leikmann með því að ákveða að ritarinn verði að vera leikmaður í sömu keppni og ráshópi, leikmaður með forgjöf, eða á einhvern annan hátt.

Í leikformum þar sem tveir eða fleiri samherjar keppa sem lið (til dæmis í fjórmenningi eða fjórleik) mega þeir ekki vera ritarar fyrir sitt lið. Þegar fjöldi liða er oddatala í keppni samherja getur nefndin þurft að finna ritara fyrir lið sem leikur eitt í ráshópi eða valið að hafa ráshóp með þremur liðum.

(4)
Rásstaðir

Nefndin getur skilgreint sérstakan stað við eða nærri fyrsta teig þar sem leikmenn verða að vera mættir og tilbúnir til leiks á rástíma sínum (sjá reglu 5.3a).

Þetta er hægt að gera með málaðri línu á jörðinni, með böndum eða á einhvern annan hátt.