The R&A - Working for Golf
Hegðunarreglur
Verklag nefnda
Fara í hluta
(1)
(2)
(3)
(4)
Skoða fleira

Hluti 5G
Hluti 5I
5H
Hegðunarreglur

Nefndin getur sett eigin reglur um hegðun leikmanna í hegðunarreglum sem útfærðar eru í staðarreglu (sjá reglu 1.2b). Setji nefndin ekki hegðunarreglur hefur hún takmarkaða möguleika á að víta leikmenn samkvæmt reglu 1.2a fyrir óviðeigandi hegðun. Eina refsingin samkvæmt þeirri reglu vegna athafna gegn anda leiksins er frávísun (sjá hluta 5H(4) varðandi nánari upplýsingar).

(1)
Að setja hegðunarreglur

Við gerð hegðunarreglna ætti nefndin að huga að eftirfarandi:

 • Þegar sett eru mörk á athafnir leikmanns, eða þær bannaðar, í hegðunarreglum ætti nefndin að taka mið af ólíkri menningu leikmanna. Til dæmis getur eitthvað sem telst óviðeigandi í einum menningarheimi verið ásættanlegt í öðrum.
 • Uppbyggingu víta sem beitt verður fyrir brot á reglunum (sjá hluta 5H(2) sem dæmi).
 • Hver hafi refsivaldið. Til dæmis hvort einungis tilteknir nefndarmenn hafi leyfi til að beita slíkum vítum, hvort tiltekinn lágmarksfjöldi nefndarmanna þurfi sameiginlega að taka slíka ákvörðun, eða hvort allir nefndarmenn hafi leyfi til slíkra ákvarðana.
 • Hvort áfrýjun verði heimil.

Nefndin getur látið eftirfarandi vera hluta hegðunarreglna:

 • Banna leikmönnum að fara inn á alla eða tiltekna bannreiti.
 • Tilgreina óásættanlega hegðun sem leikmönnum kann að vera refsað fyrir á meðan umferð er leikin, svo sem:
  • Að halda vellinum ekki snyrtilegum, t.d. með því að raka ekki glompur eða setja torfusnepla ekki í kylfuför.
  • Óásættanlegur talsmáti.
  • Misbeiting kylfa eða að valda skemmdum á vellinum.
  • Sýna öðrum leikmönnum, dómurum eða áhorfendum vanvirðingu.
 • Reglur um klæðaburð

Nefndin getur kveðið á um í hegðunarreglunum að aðvörun verði veitt fyrir fyrsta brot á reglunum en ekki víti, nema nefndin telji brotið nægilega alvarlegt til að réttlæta slíkt.

Nefndin verður að ákveða hvort hegðunarreglurnar nái til kylfubera og hvort refsa megi leikmanni samkvæmt reglunum fyrir athafnir kylfubera hans á meðan umferð er leikin.

Ekki væri viðeigandi að refsa leikmanni samkvæmt hegðunarreglunum fyrir brot áhangenda eða fjölskyldumeðlima á reglum fyrir áhorfendur. Til dæmis ætti ekki að refsa leikmanni í unglingakeppni fyrir brot áhorfenda á banni við að fjölskyldumeðlimir gangi á brautum vallarins eða innan tiltekinnar fjarlægðar frá leikmönnum.

(2)
Að ákvarða refsingar fyrir brot á reglunum

Þegar viðlög og refsingar eru ákveðin ætti nefndin að huga að eftirfarandi:

 • Hvort aðvaranir eru veittar áður en vítum eða öðrum refsingum er beitt.
 • Hvort refsing felast í agaviðurlögum eða vítum samkvæmt golfreglunum.
 • Hvort refsing fyrir hvert brot verði eitt vítahögg, almenna vítið eða hvort víti verði stighækkandi. Nefndin ætti ekki að ákvarða aðrar tegundir refsinga sem myndu hafa áhrif á skor leikmanns.
 • Hvort reglurnar heimili beitingu frávísunarvítis fyrir alvarlegt brot á reglunum.
 • Hvort víti verði sjálfkrafa beitt í hvert sinn sem leikmaður brýtur einhverja reglnanna eða hvort ákvörðun um víti sé sett í hendur nefndarinnar.
 • Hvort ólíkum vítum verði beitt eftir því hvaða hlutar reglnanna eru brotnir.
 • Agaviðurlög sem nefndin getur beitt geta falið í sér bann við þátttöku í einni eða fleiri keppnum sem nefndin stendur fyrir í framtíðinni eða kröfu um að leikmaður leiki á tilteknum tíma dags. Slík viðurlög eru ótengd golfreglunum og það er á verksviði nefndarinnar að ákveða og framfylgja viðurlögunum.
(3)
Dæmi um uppbyggingu víta fyrir brot á hegðunarreglum

Eftirfarandi fyrirmyndir að uppbyggingu víta gefur hugmynd um hvernig nefndin getur refsað fyrir brot á hegðunarreglum, samkvæmt staðarreglu.

Nefndin getur kosið að útfæra slíka vítauppbyggingu án aðvörunar eða áminningar fyrir fyrsta brot, eða hún getur ákvarðað ólíkar refsingar fyrir brot á tilteknum hlutum reglnanna. Til dæmis gætu sum brot leitt til eins höggs vítis en önnur til almenna vítisins.

Fyrirmynd uppbyggingar víta

 • Fyrsta brot á hegðunarreglum – Aðvörun eða áminning nefndarinnar.
 • Annað brot – Eins höggs víti.
 • Þriðja brot – Almennt víti.
 • Fjórða brot eða alvarlegar misgjörðir – Frávísun.
(4)
Andi leiksins og alvarleg hegðun

Samkvæmt reglu 1.2b getur nefndin veitt leikmanni frávísun fyrir alvarlegar misgjörðir sem eru gegn anda leiksins. Þetta á við hvort sem settar hafa verið hegðunarreglur fyrir keppnina eða ekki.

Þegar ákveðið er hvort leikmaður hafi gerst sekur um alvarlegar misgjörðir ætti nefndin að íhuga hvort athafnir leikmannsins voru vísvitandi og hvort þær voru svo alvarlegar að réttlæti frávísun án aðvörunar og/eða annarra refsinga ef hegðunarreglur hafa verið settar.

Í túlkun 1.2a/1 má finna dæmi um athafnir sem réttlæta og réttlæta ekki frávísun samkvæmt reglu 1.2a..