The R&A - Working for Golf
Völlurinn
Verklag nefnda
Fara í hluta
(1)
(2)
Skoða fleira

Hluti 6A
Hluti 6C
6B
Völlurinn
(1)
Viðhaldsvinna á meðan umferð er leikin

Þótt æskilegast sé að hafa lokið allri viðhaldsvinnu á vellinum áður en fyrsti ráshópur kemur að hverri holu, til að tryggja að allir leikmenn leiki völlinn í sama ástandi, er þetta ekki alltaf mögulegt. Ef viðhaldsvinna, svo sem sláttur á flötum, brautum eða karga, eða aðhlynning glompa, fer fram á meðan á keppni stendur yfir gilda úrslit keppninnar.

Þótt nefndin ætti að leitast við að merkja öll svæði sem þarfnast merkingar sem grund í aðgerð áður en keppnin hefst uppgötvast slík svæði stundum ekki fyrr en eftir að leikur er hafinn. Sömuleiðis getur veður, umferð, keppendur eða áhorfendur valdið því að frekari skemmdir verða á vellinum. Þá getur nefndin ákveðið að merkja slík svæði sem grund í aðgerð. Ákvörðun um að merkja svæði sem grund í aðgerð ætti að taka án tillits til þess hvort einhver leikmaður hafi þegar leikið frá því svæði.

(2)
Holustaðsetningar og teigar

Í höggleikskeppnum ættu allir leikmenn að leika völlinn með teigmerkin og holurnar á sama stað. Nefndin ætti að forðast að færa teigmerki eða holur eftir að ráshópar hafa leikið holuna, þótt þær aðstæður geti orðið að slíkt sé óhjákvæmilegt eða einhver utanaðkomandi færi þau fyrir slysni.

Teigur verður ónothæfur eftir að umferð hefst

Ef teigur fyllist af tímabundnu vatni eða verður ónothæfur af öðrum ástæðum eftir að umferð hefst getur nefndin frestað leik eða fært teiginn, sé það gerlegt án þess að það skapi einhverjum leikmanni umtalsverðan hagnað eða valdi honum umtalsverðum skaða.

Teigmerki eða hola færð

Ef teigmerki eða holan eru færð af vallarstarfsmanni eða ef teigmerki eru færð af leikmanni eða einhverjum öðrum ætti nefndin að ákvarða hvort einhver leikmaður hafi borið umtalsverðan skaða af því eða hlotið umtalsverðan hagnað. Sé sú raunin ætti almennt að ógilda umferðina. Hafi vellinum ekki verið breytt umtalsvert og enginn leikmaður borið umtalsverðan skaða af eða hagnast umtalsvert getur nefndin kosið að láta umferðina gilda.

Hola færð vegna erfiðrar staðsetningar

Ef í ljós kemur á meðan höggleikskeppni er leikin að hola er þannig staðsett að bolti getur ekki stöðvast nærri holunni vegna mikils halla og nokkrir leikmenn hafa þurft óeðlilega mörg pútt til að ljúka holunni hefur nefndin nokkra möguleika.

Nefndin ætti að íhuga alla þætti málsins, þar á meðal hversu erfið holustaðsetningin er, hversu margir leikmenn hafa lokið holunni og hvar holan er í umferðinni. Nefndin ætti síðan að taka þá ákvörðun sem hún telur sanngjarnasta fyrir alla leikmennina. Til dæmis:

  • Láta leik halda áfram með óbreyttri holustaðsetningu, á þeirri forsendu að sömu aðstæður gildi fyrir alla leikmenn í keppninni.
  • Halda holustaðsetningunni óbreyttri en reyna að bæta ástandið, svo sem með því að vökva flötina á milli ráshópa.
  • Úrskurða umferðina ógilda og láta alla leikmann hefja umferðina að nýju, eftir að holan hefur verið færð.
  • Fresta leik, færa holuna og láta þá leikmenn sem léku holuna leika holuna að nýju eftir að þeir hafa lokið umferðinni. Skor á holunni hjá þessum leikmönnum væri skorið sem þeir fá eftir að holan var færð.
  • Láta alla leikmenn sleppa skori á viðkomandi holu og leika viðbótarholu (hvort sem er á keppnisvellinum eða annars staðar) til að ákvarða skor á holunni.

Tvo síðustu kostina ætti aðeins að velja í undantekningartilvikum því þeir breyta umferðinni fyrir suma eða alla leikmenn.

Í holukeppni má nefndin færa holur á milli leikja.

Að færa holu þegar bolti er þegar staðsettur á flötinni, nærri holunni

Ef bolti er á flötinni þegar hola hefur skemmst ætti nefndin að reyna að lagfæra holuna þannig að hún uppfylli skilgreininguna á „holu“. Ef það er ógerlegt mega leikmennirnir ljúka holunni, þótt holan sé skemmd.

Óæskilegt er að færa holuna fyrr en allir leikmenn í ráshópnum hafa lokið holunni. Þó má nefndin færa holuna á nálægan og sambærilegan stað ef slíkt er nauðsynlegt til að tryggja eðlilegan leik. Ef þetta er gert áður en allir leikmennirnir í ráshópnum hafa lokið holunni ætti nefndin að láta alla leikmenn sem eiga bolta á flötinni færa bolta sinn á stað sem er sambærilegur við þann sem boltinn var áður. Ef bolti er utan flatarinnar ætti nefndin að láta leika þeim bolta þar sem hann liggur.