The R&A - Working for Golf
Að veita leikmönnum aðstoð vegna reglnanna
Verklag nefnda
Fara í hluta
(1)
(2)
(3)
(4)
(5)
(6)
(7)
(8)
(9)
(10)
(11)
(12)
Skoða fleira

Hluti 6B
Hluti 6D
6C
Að veita leikmönnum aðstoð vegna reglnanna

Nefndin getur tilnefnt dómara til aðstoðar við stjórnun keppni. Dómari er starfsmaður sem nefndin hefur falið að úrskurða um staðreyndir og framfylgja reglunum.

(1)
Dómarar í holukeppni

Í holukeppni fara skyldur og völd dómara eftir því hlutverki sem hann sinnir:

 • Sinnir einum leik alla umferðina. Þar sem dómarinn fylgir leiknum alla umferðina er hann ábyrgur fyrir að bregðast við öllum reglubrotum sem hann sér eða er sagt frá (sjá reglu 20.1b(1) og skilgreiningu á „dómara“).
 • Sinnir mörgum leikjum eða tilteknum holum eða ákveðnum svæðum vallarins. Þar sem dómarinn fylgir ekki leiknum alla umferðina ætti hann ekki að skipta sér af leik nema í eftirfarandi tilvikum:
  • Þegar leikmaður í leiknum óskar eftir aðstoð vegna reglnanna eða biður um úrskurð (sjá reglu 20.1b(2)). Þegar dómari úrskurðar að ósk leikmanns ætti dómarinn alltaf að staðfesta að óskin um úrskurð hafi verið borin fram tímanlega (sjá reglur 20.1b(2) og 20.1b(3)).
  • Þegar leikmaður eða leikmenn kunna að brjóta reglu 1.2b (hegðunarreglur), reglu 1.3b(1) (tveir eða fleiri leikmenn sammælast vísvitandi um að hunsa reglu eða víti sem þeir vita að á við), reglu 5.6a (óhæfileg töf) eða reglu 5.6b (leikhraði).
  • Þegar leikmaður mætir of seint á fyrsta teig (regla 5.3).
  • Þegar tími leikmanns við leit að bolta nær þremur mínútum (sjá reglu 5.6a og skilgreiningu á „týndur“).
(2)
Dómarar í höggleik

Í höggleik:

 • Er dómari ábyrgur fyrir að bregðast við öllum reglubrotum sem hann sér eða er sagt frá.
 • Þetta á við hvort sem dómara er ætlað að fylgja einum ráshópi alla umferðina eða að fylgjast með mörgum ráshópum, tilteknum holum eða hluta vallarins.
(3)
Takmarkað hlutverk nefndarmanna og dómara

Nefndin er sá einstaklingur eða hópur sem ber ábyrgð á keppninni eða vellinum. Innan nefndarinnar:

 • Er hægt að takmarka hlutverk sumra nefndarmanna.
 • Geta sumar ákvarðanir krafist samþykkis tiltekinna nefndarmanna.
 • Getur tiltekin ábyrgð verið lögð á einstaklinga utan nefndarinnar.

Dæmi:

 • Að ákveða að einungis sumir nefndarmanna megi framfylgja leikhraðareglum með því að fylgjast með og tímamæla leikmenn eða ráshópa og að ákveða hvenær eigi að veita aðvaranir eða beita vítum.
 • Að tilgreina að a.m.k. þrjá nefndarmenn þurfi til að ákveða að leikmaður skuli hljóta frávísun fyrir alvarlega hegðun, samkvæmt reglu 1.2.
 • Að veita golfkennara, vallarstjóra eða öðrum tilnefndum einstaklingum heimild til að úrskurða fyrir hönd nefndarinnar.
 • Að heimila vallarstjóra að fresta leik fyrir hönd nefndarinnar.
 • Að útiloka meðlim nefndarinnar sem er þátttakandi í keppninni að taka ákvörðun um frestun leiks í þeirri keppni.
 • Að takmarka hvaða dómarar hafi leyfi til að skilgreina ómerkt svæði sem grund í aðgerð á meðan á keppninni stendur.

Nefndin getur takmarkað skyldur dómara í höggleik eða holukeppni (til dæmis ef hún telur að slíkt muni auka samræmi í úrskurðum milli leikmanna) með því að tilgreina mál sem einungis nefndin eða tilteknir dómarar mega úrskurða um.

Dæmi um slík mál eru:

 • Lýsa svæði á vellinum sem grund í aðgerð.
 • Framfylgja leikhraðareglum með því að fylgjast með og tímamæla leikmenn eða ráshópa og ákveða hvenær veita eigi aðvaranir eða beita vítum.
 • Veita leikmönnum frávísun vegna alvarlegrar hegðunar samkvæmt reglu 1.2.
(4)
Dómari heimilar leikmanni að brjóta reglu

Ákvörðun dómara er endanleg og því er leikmanni ekki refsað ef dómari heimilar honum að brjóta reglu. Sjá þó reglu 20.2d og hluta 6C(10) eða 6C(11) varðandi aðstæður þar sem hægt er að leiðrétta mistökin.

(5)
Dómari aðvarar leikmann sem er að fara að brjóta reglu

Þótt dómara sé ekki skylt að aðvara leikmann sem er við það að fara að brjóta reglu er eindregið mælt með því að dómari geri það þegar mögulegt er til að forða leikmanni frá víti. Dómari sem fer að þessum tilmælum með því að veita leikmanni óumbeðnar upplýsingar um reglurnar til að forða leikmanninum frá víti ætti að gera það jafnt við alla leikmenn.

Þó gildir að í holukeppni þar sem dómari fylgir ekki einum leik alla umferðina hefur hann ekki leyfi til að skipta sér af. Dómarinn ætti ekki að aðvara leikmanninn nema hann sé spurður og ef leikmaðurinn brýtur regluna ætti dómarinn ekki að beita víti nema mótherjinn óski eftir úrskurði.

(6)
Ágreiningur um ákvörðun dómara

Ef leikmaður er ósammála ákvörðun dómara í holukeppni eða höggleik á leikmaðurinn að öll jöfnu ekki rétt á að fá álit annarra, hvort sem er annars dómara eða nefndarinnar (sjá reglu 20.2a). Þó getur dómari í þessari stöðu samþykkt að leita álits annarra.

Nefndin getur sett reglu um að leikmönnum sé alltaf heimilt að fá álit annarra ef þeir eru ósammála ákvörðun dómara.

(7)
Að ákvarða um staðreyndir máls

Að ákvarða um staðreyndir máls er eitt af því erfiðasta sem dómari eða nefndin þurfa að kljást við.

 • Í öllum tilvikum þegar ákvarða þarf um staðreyndir máls verður að ákvarða um vafa í ljósi allra kringumstæðna og mat á gildi sannana, þar á meðal líkum þegar það á við. Ef nefndinni er ókleift að ákvarða staðreyndirnar á fullnægjandi hátt að eigin mati ætti hún að leysa úr málinu á skynsamlegan og sanngjarnan hátt og í samræmi við hvernig sambærileg mál eru meðhöndluð samkvæmt reglunum.
 • Vitnisburður leikmanna sem hlut eiga að máli er mikilvægur og þarf að meta.
  • Í sumum tilvikum þegar staðreyndir eru ekki ljósar ætti vafi að úrskurðast þeim leikmanni í hag sem á boltann sem kemur við sögu.
  • Í öðrum tilvikum ætti vafi að úrskurðast gegn leikmanninum sem á boltann sem kemur við sögu.
 • Ekki er hægt að setja nein ákveðin viðmið um hvernig meta eigi framburð leikmanna eða hvaða vægi eigi að gefa slíkum framburði. Hvert tilvik er sérstakt og rétt viðbrögð fara eftir aðstæðum hverju sinni. Ákvörðun um þau þarf að leggja í hendur dómara eða nefndarinnar.
 • Þegar leikmanni er ætlað að ákveða stað, línu, svæði eða staðsetningu samkvæmt reglunum ætti nefndin að ákvarða hvort leikmaður hafi beitt skynsamlegu mati. Telji nefndin svo hafa verið ætti hún að taka ákvörðun leikmannsins gilda og samþykkja slíka ákvörðun, jafnvel þótt í ljós komi eftir að höggið er slegið að ákvörðunin var röng (sjá reglu 1.3b(2)).
 • Taka ætti tillit til og meta ætti framburð þeirra sem ekki eru þátttakendur í keppninni, þar á meðal áhorfenda. Einnig er eðlilegt að nota sjónvarpsupptökur og þvíumlíkt til aðstoðar við að leysa úr vafa, jafnvel þótt beita ætti viðmiðinu um „ber augu“ þegar slík gögn eru notuð (sjá reglu 20.2c).
 • Mikilvægt er að leyst sé sem fyrst úr álitaefnum um staðreyndir, þannig að keppnin geti haldið áfram á eðlilegan hátt. Því getur dómarinn verið bundinn við að meta þau gögn sem eru honum aðgengileg á hverjum tíma. Alla slíka úrskurði má endurskoða eftir frekari skoðun dómara eða nefndarinnar, ef frekari sönnunargögn koma fram eftir upphaflega úrskurðinn.

Ef dómari úrskurðar er leikmanninum heimilt að halda áfram á grunni þess úrskurðar, hvort sem um er að ræða túlkun golfreglnanna eða mat á staðreyndum mála. Í báðum tilvikum kann nefndin að hafa vald til að leiðrétta úrskurðinn, reynist hann rangur (sjá reglu 20.2d og hluta 6C(10) eða 6C(11)). Hins vegar eru takmörk fyrir því hvenær dómari eða nefndin geta leiðrétt mistök, bæði í holukeppni og höggleik, samanber leiðbeiningar í reglu 20.2d.

Þegar sú staða kemur upp í tengslum við golfreglurnar að orð eins leikmanns standa gegn orði annars og líkur hallast að hvorugum ætti leikmaðurinn sem sló höggið eða sem viðkomandi skor tilheyrir að njóta vafans.

(8)
Ekki hægt að ákvarða rétta stöðu leiks

Ef tveir leikmenn ljúka leik í holukeppni en eru ósammála um úrslitin ættu þeir að vísa málinu til nefndarinnar.

Nefndin ætti að afla allra fáanlegra sönnunargagna og reyna að ákvarða rétta stöðu leiksins. Ef, að því loknu, hún er ófær um að ákvarða rétta stöðu leiksins ætti nefndin að leysa málið á sem sanngjarnastan hátt, sem getur falist í að úrskurða að leikurinn skuli endurtekinn, ef það er mögulegt.

(9)
Úrskurðir þegar leikmaður fer að samkvæmt reglu sem ekki á við

Ef leikmaður gerir eitthvað samkvæmt reglu sem á ekki við um aðstæður hans og slær síðan högg verður nefndin að ákvarða hvaða reglu eigi að beita til að hægt sé að úrskurða um athafnir leikmannsins.

Til dæmis:

 • Leikmaður tók lausn frá vallarmarkahlut samkvæmt reglu 16.1b. Hann fór að samkvæmt reglu sem ekki átti við. Þar sem regla 19.1 (ósláanlegur bolti) krefst þess að leikmaðurinn hafi ákveðið að fara að samkvæmt reglunni má nefndin ekki beita reglu 19 á athafnir leikmannsins. Þar sem engin regla leyfði leikmanninum að lyfta bolta sínum undir þessum kringumstæðum ætti nefndin að ákvarða að regla 9.4 eigi við og engar undantekninganna forða leikmanninum frá víti.
 • Leikmaður ákvað að bolti hans væri ósláanlegur innan vítasvæðis, lét boltann falla samkvæmt lausnaraðferð b eða c í reglu 19.2 og lék boltanum síðan innan vítasvæðisins. Þar sem regla 17.1 er eina reglan sem leyfir leikmanninum að lyfta bolta sínum til að fá lausn innan vítasvæði ætti nefndin að ákvarða að regla 17 eigi við og úrskurða samkvæmt því. Leikmaðurinn telst því hafa leikið frá röngum stað (sjá reglu 14.7) og að auki fær hann eitt högg í víti samkvæmt reglu 17.1.
 • Bolti leikmanns lá í tímabundnu vatni sem hann hélt fyrir misskilning að væri vítasvæði. Leikmaðurinn lét bolta falla og lék honum samkvæmt reglu 17.1d(2). Þar sem regla 16.1b var eina reglan sem heimilaði leikmanninum að lyfta bolta sínum og taka lausn undir þessum kringumstæðum ætti nefndin að ákvarða að regla 16.1b eigi við og úrskurða samkvæmt því. Að því gefnu að leikmaðurinn hafi ekki látið bolta falla og leikið honum af svæði sem á við um reglu 16.1b telst leikmaðurinn því hafa leikið af röngum stað (sjá reglu 14.7).
 • Leikmaður vissi ekki staðsetningu upphaflegs bolta síns en taldi, án þess að það væri vitað eða nánast öruggt, að boltinn væri í grund í aðgerð. Leikmaðurinn lét annan bolta falla og lék honum samkvæmt reglu 16.1e og 16.1b. Þar sem leikmaðurinn vissi ekki staðsetningu upphaflega boltans var regla 18.1 eina reglan undir þessum kringumstæðum sem leikmaðurinn hefði getað fylgt. Því ætti nefndin að ákvarða að regla 18.1 sé viðeigandi regla og úrskurða samkvæmt því. Leikmaðurinn telst því hafa sett bolta í leik með fjarlægðarvíti og að hafa leikið af röngum stað (sjá reglu 14.7). Að auki fær hann fjarlægðarvíti samkvæmt reglu 18.1.
(10)
Rangir úrskurðir í holukeppni

Samkvæmt reglu 20.2a hafa leikmenn ekki rétt á að áfrýja úrskurði dómara. Hins vegar, ef síðar kemur í ljós að úrskurður dómara eða nefndarinnar var rangur verður úrskurðurinn leiðréttur ef kostur er samkvæmt reglunum (sjá reglu 20.2d). Hér á eftir er útskýrt hvenær leiðrétta ætti rangan úrskurð í holukeppni.

Leiðrétting á röngum úrskurði dómara á meðan leikur í holukeppni stendur yfir

 • Dómari ætti ekki að leiðrétta rangan úrskurð eftir að annar hvor leikmannanna hefur slegið næsta högg á holu.
 • Ef ekki eru slegin fleiri högg á holu eftir að úrskurðurinn var veittur ætti dómari ekki að leiðrétta rangan úrskurð eftir að annar hvor leikmannanna hefur slegið högg af næsta teig.
 • Annars ætti að leiðrétta rangan úrskurð dómara.
 • Í tilvikum þar sem hægt er að leiðrétta rangan úrskurð, ef rangur úrskurður leiðir til þess að einn eða fleiri leikmenn lyfta bolta sínum er dómarinn ábyrgur fyrir að leiðbeina leikmönnunum um að leggja boltana aftur og ljúka holunni, samkvæmt leiðréttum úrskurði.
 • Viðmiðin hér að fram eiga einnig við ef dómara láist að víta leikmann fyrir brot á reglu, vegna misskilnings um úrslit holu.
  • Til dæmis láist dómara að tilkynna leikmanni holutap vegna brots á leikhraðareglum því dómarinn hélt að leikmaðurinn hafi þegar verið búinn að tapa holunni. Á næstu holu uppgötvar dómarinn að leikmaðurinn hafði ekki tapað holunni. Ef leikmaðurinn eða mótherji hans höfðu slegið högg af teig þessarar næstu holu getur dómarinn ekki lengur leiðrétt mistökin.

Rangur úrskurður leiðréttur á lokaholu áður en úrslit eru endanleg

Ef dómari veitir rangan úrskurð á lokaholu leiks ætti að leiðrétta mistökin allt þar til úrslit leiksins eru endanleg, eða ef leikurinn er framlengdur, áður en annar hvor leikmannanna slær högg af næsta teig.

Rangur úrskurður dómara í holukeppni veldur því að leikmaður slær högg af röngum stað

Ef leikmaður í holukeppni heldur leik áfram á grunni úrskurðar dómara sem felur í sér að láta bolta falla og leikur boltanum af röngum stað og nefndinni verða mistökin ljós ætti eftirfarandi að gilda:

 • Ef ekki er um alvarlegt brot að ræða og leikmaðurinn hefur ekki borið umtalsverðan skaða af því að leika af röngum stað er of seint að leiðrétta úrskurðinn eftir að leikmaðurinn hefur slegið högg frá röngum stað. Höggin sem slegin voru eftir ranga úrskurðinn gilda, án víta fyrir að leika af röngum stað.
 • Ef um alvarlegt brot er að ræða eða leikmaðurinn ber umtalsverðan skaða af því að leika af röngum stað ætti nefndin að leiðrétta mistökin ef mótherjinn hefur ekki slegið næsta högg sitt á holunni. Annars er of seint að leiðrétta ranga úrskurðinn.
 • Ef um alvarlegt brot er að ræða og mótherjinn hefur ekki slegið högg á holunni eftir að úrskurðurinn var veittur ætti nefndin að leiðrétta úrskurðinn ef hvorugur leikmaðurinn hefur slegið högg af næsta teig eða, ef um síðustu holu leiksins er að ræða, áður en úrslit leiksins eru endanleg. Annars er of seint að leiðrétta ranga úrskurðinn.
 • Ef um alvarlegt brot er að ræða og of seint er að leiðrétta mistökin verða höggin sem slegin voru eftir ranga úrskurðinn að gilda, vítalaust.
(11)
Rangir úrskurðir í höggleik

Leikmaður hefur ekki rétt á að áfrýja úrskurði dómara (sjá reglu 20.2a). Hins vegar, ef síðar kemur í ljós að úrskurður dómara eða nefndarinnar var rangur ætti að leiðrétta úrskurðinn ef reglurnar leyfa (sjá reglu 20.2d). Í þessum hluta er útskýrt hvenær leiðrétta ætti ranga úrskurði í höggleik.

Rangur úrskurður dómara í höggleik leiðréttur

Þegar mögulegt er ætti dómari að leiðrétta rangan úrskurð í höggleik sem felst í rangri beitingu vítis eða að víti hafi ekki verið beitt, að því gefnu að keppninni sé ekki lokið (sjá reglu 20.2e).

Leikmanni í höggleik ranglega sagt að afturkalla högg

Ef dómari í höggleik segir leikmanni ranglega að afturkalla högg og slá að nýju, vítalaust, gildir afturköllunin og skor leikmannsins með seinna högginu er skor hans á holunni.

Leikmaður í höggleik slær högg af röngum stað vegna rangs úrskurðar. Ferli þegar mistökin uppgötvast

Ef leikmaður í höggleik fer eftir úrskurði dómara sem felur í sér að láta bolta falla og leika honum af röngum stað og nefndinni verða síðan mistökin ljós gildir eftirfarandi:

 • Ef ekki er um alvarlegt brot að ræða og leikmaðurinn hefur ekki borið umtalsverðan skaða af því að leika frá röngum stað er of seint að leiðrétta mistökin og höggið sem leikið var eftir ranga úrskurðinn gildir, án vítis fyrir að leika af röngum stað.
 • Ef um alvarlegt brot er að ræða eða leikmaðurinn ber umtalsverðan skaða af því að leika af röngum stað, og leikmaðurinn hefur ekki slegið högg til að hefja leik á annarri holu eða, ef um síðustu holu umferðarinnar er að ræða, áður en skorkortinu er skilað, ætti nefndin að leiðrétta mistökin. Nefndin ætti að láta leikmanninn afturkalla höggið sem leikið var af röngum stað og öll högg eftir það og halda síðan áfram á réttan hátt. Leikmaðurinn fær ekki víti fyrir að leika af röngum stað. Ef of seint er að leiðrétta mistökin verða höggin sem slegin voru eftir ranga úrskurðinn að gilda, án vítis fyrir að leika af röngum stað.

Dómari veitir rangar upplýsingar. Leikmaður byggir á upplýsingunum við leik sinn

Leikmenn eiga að þekkja hvenær þeir brjóta reglu og vera heiðarlegir við að beita sig vítum (sjá reglu 1.3b). Hins vegar, ef dómari veitir leikmanninum rangar upplýsingar um reglurnar á leikmaðurinn rétt á að byggja á þeim upplýsingum í áframhaldandi leik sínum.

Þar af leiðir að nefndin kann að þurfa að meta bæði hve lengi leikmaðurinn átti rétt á að byggja á slíkum röngum upplýsingum og eðlilegt skor leikmannsins þegar leikmaðurinn hefur bakað sér víti samkvæmt reglunum vegna þess að leikmaðurinn byggði á röngu upplýsingunum.

Undir þessum kringumstæðum ætti nefndin að leysa málið á þann hátt sem henni þykir sanngjarnastur, í ljósi allra staðreynda og með það að leiðarljósi að enginn leikmannanna hljóti óhæfilegan hagnað eða tap af atvikinu. Ef slíkar rangar upplýsingar hafa umtalsverð áhrif á úrslit keppninnar kann nefndin að þurfa að ógilda umferðina. Eftirfarandi viðmið eiga við:

 • Almennar leiðbeiningar um reglurnar
  Ef meðlimur nefndarinnar eða dómari veita rangar upplýsingar af því tagi sem teljast má almennar leiðbeiningar um reglurnar ætti leikmaðurinn ekki að sleppa við víti.
 • Sértækir úrskurðir
  Þegar dómari veitir sértækan úrskurð sem er andstæður golfreglunum undir tilteknum kringumstæðum ætti leikmaðurinn að vera undanþeginn víti. Nefndin ætti að framlengja þessa undanþágu til loka umferðarinnar í þeim tilfellum að leikmaður fer rangt að upp á eigin spýtur en undir nákvæmlega sömu kringumstæðum og dómarinn úrskurðaði ranglega fyrr í umferðinni. Hins vegar fellur undanþágan niður ef leikmanninum verður ljóst í umferðinni hver er rétt aðferð eða einhver gerir fyrirvara um aðferðir hans.
  Til dæmis biður leikmaður dómara um aðstoð við að taka lausn úr rauðu vítasvæði og dómarinn segir leikmanninum ranglega að hann verði að láta bolta falla aftur því hann hafi staðið innan vítasvæðisins. Ef leikmaðurinn lætur bolta falla aftur af þessari ástæðu þegar hann tekur lausn úr rauðu vítasvæði þremur holum síðar ætti nefndin ekki að víta leikmanninn fyrir að leika af röngum stað.
 • Leiðbeiningar um staðarreglur eða keppnisskilmála
  Þegar nefndarmaður eða dómari veita rangar upplýsingar um hvort tiltekin staðarregla eða keppnisskilmáli sé í gildi ætti leikmaðurinn að sleppa við víti fyrir athafnir byggðar á þeim upplýsingum. Slík undanþága gildir það sem eftir er umferðarinnar, nema upplýsingarnar séu leiðréttar fyrr og þá ætti undanþágan að falla strax niður.
  Til dæmis, ef leikmanni er sagt af dómara að fjarlægðarmælar sem mæla reiknaða högglengd séu leyfðir, þótt staðarregla sem bannar notkun þeirra sé í gildi, fær leikmaðurinn ekki víti fyrir slíka mælingu það sem eftir er umferðarinnar. Hins vegar ef nefndinni verður ljóst að rangur úrskurður var veittur ætti að láta leikmanninn vita eins fljótt og hægt er.
 • Úrskurðir um útbúnað
  Ef nefndarmaður eða dómari úrskurða að óleyfileg kylfa sé leyfileg sleppur leikmaðurinn við víti fyrir að nota kylfuna. Slík undanþága gildir það sem eftir er keppninnar, nema úrskurðurinn sé leiðréttur fyrr og þá ætti undanþágan að falla niður við lok umferðarinnar þar sem úrskurðurinn var leiðréttur.

Leikmaður lyftir bolta án leyfis vegna misskilnings um leiðbeiningar dómara

Ef leikmaður lyftir bolta sínum þegar hann má það ekki vegna eðlilegs misskilnings á fyrirmælum dómara er það vítalaust og leggja verður boltann aftur, nema leikmaður fari að samkvæmt annarri reglu.

Til dæmis stöðvast bolti leikmanns upp við hreyfanlega hindrun og hann biður um lausn. Dómari leiðbeinir leikmanninum réttilega um að fjarlægja megi hindrunina samkvæmt reglu 15.2 og að merkja ætti staðsetningu bolta ef hann kynni að hreyfast þegar hindrunin er fjarlægð. Leikmaðurinn merkir staðsetningu boltans og lyftir honum áður en dómarinn getur stöðvað hann.

Venjulega fær leikmaðurinn eitt vítahögg samkvæmt reglu 9.4 fyrir að lyfta bolta sínum þegar það má ekki, en, að því gefnu að dómarinn samþykki að leikmaðurinn hafi misskilið leiðbeiningarnar, er boltinn lagður aftur vítalaust.

Dómari segir leikmanni ranglega að halda áfram leik með varabolta

Leikmaður hafði ástæðu til að leika varabolta frá teignum og finnur upphaflega boltann innan vítasvæðis. Leikmanninum er síðan ranglega sagt af dómara að hann verði að halda leik áfram með varaboltanum og ljúka holunni með honum. Leikmaðurinn hlýtur ekki víti fyrir að leika röngum bolta (þ.e. varaboltanum sem leikmaðurinn hefði átt að hætta að leika, samkvæmt reglu 18.3c).

Ef nefndinni verður síðan ljós þessi rangi úrskurður ætti hún að úrskurða að skor leikmannsins á holunni sé upphafshöggið með upphaflega boltanum auk allra högga sem leikmaðurinn sló til að ljúka holunni með varaboltanum eftir ranga úrskurðinn, þar sem annað höggið að varaboltanum verður annað högg leikmannsins á holunni. Hins vegar, ef það hefði verið augljóslega óraunsætt að leika upphaflega boltanum frá vítasvæðinu verður leikmaðurinn einnig að bæta við einu vítahöggi samkvæmt reglu 17.1 við skorið á holunni.

Nefndin úrskurðar ranglega þegar leikmaður hefur leikið tveimur boltum samkvæmt reglu 20.1c(3). Hvenær leiðrétta má úrskurðinn

Leikmaður í höggleik leikur tveimur boltum samkvæmt reglu 20.1c(3), tilkynnir málið til nefndarinnar og nefndin ákveður skorið samkvæmt röngum bolta. Slík mistök eru rangur úrskurður en ekki stjórnunarleg mistök. Því gildir regla 20.2d og niðurstaðan ræðst af því hvenær nefndinni urðu mistökin ljós:

 • Ef nefndinni verða mistökin ljós áður en keppninni lýkur ætti hún að leiðrétta úrskurðinn með því að breyta skorinu á holunni samkvæmt rétta boltanum.
 • Ef nefndinni verða mistökin ljós eftir að keppninni er lokið verður ranga skorið að gilda sem skor leikmannsins á holunni. Samkvæmt reglu 20.2d er slíkur úrskurður endanlegur þegar keppninni er lokið.

Frávísunarvíti ranglega beitt gegn sigurvegara. Mistökin koma í ljós eftir umspil tveggja annarra leikmanna um fyrsta sætið

Ef rangur úrskurður veldur því að eiginlegur sigurvegari keppni fær frávísun og tveir aðrir leikmenn leika umspil um fyrsta sætið fer besta úrlausnin eftir því hvenær nefndinni verða mistökin ljós. Ef nefndinni verða mistökin ljós áður en úrslit keppninnar verða endanleg ætti nefndin að leiðrétta ranga úrskurðinn með því að fella frávísunarvítið niður og lýsa leikmanninn sigurvegara. Ef nefndinni verða mistökin ljós eftir að úrslit keppninnar eru orðin endanleg verða þau úrslit að gilda, ásamt frávísuninni.

Beiting frávísunarvítis í keppni þar sem ekki eru notuð öll skor til að ákvarða sigurvegara

Í tilvikum svo sem sveitakeppni í höggleik með mörgum umferðum þar sem skor allra leikmanna gilda ekki í heildarskori sveitarinnar getur skor leikmanns ekki gilt í umferðinni ef hann hlýtur frávísun, en getur gilt í öðrum umferðum. Til dæmis ef tvö skor af þremur gilda og leikmaður fær frávísun í fyrstu umferð af fjórum nær frávísunin aðeins til fyrstu umferðarinnar og skor leikmannsins í öðrum umferðum getur gilt fyrir sveitina.

Þetta á við um allar keppnir þar sem ekki eru notuð öll skor til að ákvarða sigurvegara (til dæmis einstaklingskeppni þar sem þrjú bestu skor leikmannsins af fjórum gilda).

Ef leikmaður fær frávísun fyrir brot á reglu 1.3b eða fyrir brot á hegðunarreglum nefndarinnar er það á valdi nefndarinnar að ákveða hvort frávísunin nái einungis til umferðarinnar eða til allrar keppninnar.

(12)
Að sameina holukeppni og höggleik

Vegna þess umtalsverða munar sem er á sumum reglum er mælt gegn því að sameina holukeppni og höggleik. Stöku sinnum munu leikmenn óska eftir að sameina leikformin eða óska eftir úrskurði eftir að hafa þegar gert það upp á eigin spýtur. Nefndin ætti að leitast við að aðstoða leikmenn í þessum tilfellum og styðjast þá við eftirfarandi.

Þegar leikmenn óska eftir að sameina holukeppni og höggleik

Ef nefndin velur að leyfa leikmönnum að leika holukeppni samhliða keppni í höggleik er mælt með að leikmönnunum sé ráðlagt að láta höggleiksreglur gilda alla umferðina. Til dæmis að engar gjafir séu leyfðar og ef leikmaður leikur í rangri röð hafi mótherjinn ekki kost á að afturkalla höggið.

Þegar leikmenn óska eftir úrskurði eftir að hafa sameinað holukeppni og höggleik

Ef óskað er eftir úrskurði nefndarinnar eftir að leikmenn hafa sameinað holukeppni og höggleik ætti að beita reglunum eins og þær myndu eiga við í hvoru leikformi fyrir sig. Til dæmis ef einn leikmaður lauk ekki holu af einhverri ástæðu hlýtur hann frávísun úr höggleikskeppninni fyrir brot á reglu 3.3c. Varðandi Stableford, hámarksskor og par/skolla, sjá reglur 21.1c(2), 21.2c og 21.3c(2).