The R&A - Working for Golf
Frestanir og leikur hafinn að nýju
Verklag nefnda
Fara í hluta
(1)
(2)
(3)
(4)
(5)
(6)
(7)
Skoða fleira

Hluti 6D
Hluti 6F
6E
Frestanir og leikur hafinn að nýju
(1)
Tafarlaus og venjuleg frestun leiks

Frestanir sem nefndin getur fyrirskipað eru tvenns konar, með ólíkum kröfum til leikmanna um hvenær þeir verða að stöðva leik (sjá reglu 5.7b).

  • Tafarlaus frestun (svo sem vegna yfirvofandi hættu). Ef nefndin lýsir yfir tafarlausri frestun leiks verða allir leikmenn að stöðva leik þegar í stað og mega ekki slá fleiri högg fyrr en nefndin hefur leik að nýju.
  • Venjuleg frestun (svo sem vegna rökkurs eða óleikhæfs vallar). Ef nefndin frestar leik af venjulegum ástæðum ráðast næstu skref leikmanna af því hvort ráshópur þeirra er milli tveggja hola eða að leika holu.

Nefndin ætti að nota aðra merkjagjöf til að tilkynna um tafarlausa frestun en notuð er fyrir venjulega frestun. Upplýsingum um merkjagjöfina ætti að koma á framfæri til leikmanna í staðarreglum.

Sjá fyrirmynd staðarreglu J-1 - Aðferðir við frestun leiks og við að hefja leik að nýju.

Þegar leik er frestað þarf nefndin að meta hvort leikmennirnir verði áfram á sínum stað á vellinum eða hvort þeir verði fluttir í hús.

Hvort sem frestunin er tafarlaus eða venjuleg ætti nefndin að hefja leik að nýju um leið og það er hægt. Leikmenn munu hefja leik að nýju þaðan sem þeir stöðvuðu leik (sjá reglu 5.7c).

(2)
Að ákveða hvenær eigi að fresta leik og hefja leik að nýju

Að ákveða hvenær eigi að fresta leik og að hefja leik að nýju geta verið erfiðar ákvarðanir fyrir nefndina. Nefndin ætti að hafa eftirfarandi til hliðsjónar:

Eldingar

Nefndin ætti að beita öllum tiltækum meðölum til að ákvarða hvort hætta sé af eldingum og bregðast við á þann hátt sem hún telur viðeigandi. Leikmenn mega einnig stöðva leik að eigin frumkvæði telji þeir að hætta sé af eldingum (sjá reglu 5.7a).

Þegar nefndin telur að ekki sé lengur hætta af eldingum og fyrirskipar leikmönnum að hefja leik að nýju verða leikmennirnir að hlýða því. Sjá túlkun 5.7c/1 varðandi leiðbeiningar um hvað eigi að gera ef leikmaður neitar að hefja leik að nýju því hann telur að enn sé hætta af eldingum.

Skyggni

Ef lendingarsvæði eru leikmönnum ekki lengur sýnileg, svo sem vegna þoku eða rökkurs, er mælt með að leik sé frestað. Sömuleiðis ætti að fresta leik ef leikmenn geta ekki lesið leiklínuna á flötum vegna slæms skyggnis.

Vatn

Ef holan er öll umflotin tímabundnu vatni og ekki er hægt að fjarlægja það ætti í höggleik að ákveða að völlurinn sé óleikhæfur og nefndin ætti að fresta leik samkvæmt reglu 5.7.

Í holukeppni, ef ekki er hægt að fjarlægja vatnið getur nefndin frestað leik eða fært holuna.

Vindur

Ef nokkrir boltar hreyfast vegna vinds getur það leitt til þess að leik sé frestað, en að öllu jöfnu ætti nefndin ekki að fresta leik þótt einn eða tveir boltar hafi hreyfst vegna vinds á einni flöt. Á flötinni gilda sérstakar reglur sem forða leikmönnum undan vítum og koma í veg fyrir að þeir hagnist á að boltinn fjúki nær holunni eða tapi á því að boltinn fjúki fjær holunni (sjá reglur 9.3 og 13.1).

Nefndin ætti því aðeins að íhuga frestun leiks vegna vinds ef komið hafa upp nokkur tilfelli þar sem boltar hreyfast og leikmenn eiga í erfiðleikum með að leggja boltann aftur á staðinn þaðan sem hann fauk, eða a.m.k. tiltölulega nálægt þeim stað ef boltinn tollir ekki á upphaflegum stað.

(3)
Leikur hafinn að nýju

Þegar hefja á leik að nýju eftir frestun munu leikmenn hefja leik að nýju frá þeim stað þar sem þeir hættu leik (sjá reglu 5.7d).

Nefndin ætti að vera viðbúin að hugleiða eftirfarandi:

  • Ef leikmenn voru fluttir af vellinum, hvort gefa eigi þeim tíma til að hita upp áður en leikur hefst að nýju.
  • Ef æfingasvæði voru lokuð á meðan á frestuninni stóð, hvenær opna ætti þau svo leikmenn fái nægan tíma til að undirbúa sig að nýju fyrir leik.
  • Hvernig koma eigi leikmönnunum á sinn stað á vellinum.
  • Hvernig tryggja eigi að allir leikmennirnir séu komnir á sinn stað þegar leikur hefst að nýju. Þetta gæti falist í því að fulltrúar nefndarinnar séu úti á velli og fylgist með hvenær allir leikmenn hafa skilað sér á sinn stað.
(4)
Hvort aflýsa eigi umferð

Holukeppni 

Í holukeppni eru báðir leikmennirnir að leika við sömu skilyrði, án þess að annar hafi forskot yfir hinn. Af þessum ástæðum ætti ekki að aflýsa leik í holukeppni eftir að hann hefst.

Ef leikmennirnir komast að samkomulagi um að stöðva leik, eins og heimilt er samkvæmt reglu 5.7a, eða nefndin telur að aðstæður kalli á að leik sé frestað ætti að hefja leik að nýju þaðan sem hann var stöðvaður.

Í sveitakeppnum, ef sumum leikjum var lokið en ekki er hægt að ljúka öðrum á áætluðum degi vegna myrkurs eða veðurs, ættu keppnisskilmálar að útskýra hvernig fara eigi með leikina sem var lokið og sem ekki tókst að ljúka (sjá hluta 5A(4)). Til dæmis:

  • Úrslit leikja sem tókst að ljúka gilda og halda á öðrum leikjum áfram síðar eða leika þá að nýju.
  • Leika á alla leiki að nýju og sveitir mega breyta liðsskipan sinni.
  • Allir leikir sem ekki tókst að ljúka teljast hafa endað með jafntefli.

Höggleikur

Engar skýrar leiðbeiningar er hægt að veita um hvenær nefndir ættu að aflýsa umferð í höggleik. Rétt viðbrögð fara eftir aðstæðum hverju sinni og verða að vera samkvæmt ákvörðun nefndarinnar.

Aðeins ætti að aflýsa umferð ef það væri mjög ósanngjarnt að gera það ekki. Til dæmis, ef nokkrir leikmenn hefja umferð í mjög slæmu veðri, aðstæður versna síðan enn frekar þannig að ekki er hægt að halda leik áfram þann dag en þegar halda á leik áfram næsta dag er veður mjög gott.

Þegar umferð er aflýst falla öll skor og öll víti niður. Í því felast, að öllu jöfnu, frávísunarvíti. Þó ætti ekki að fella niður frávísunarvíti vegna alvarlegrar óviðeigandi hegðunar (regla 1.2) eða vegna brota á hegðunarreglum.

(5)
Leikmenn neita að hefja leik eða hætta leik vegna veðurs

Ef slæmt veður verður til þess að leikmaður neitar að hefja leik á þeim tíma sem nefndin hefur ákveðið eða hættir leik, og nefndin aflýsir síðar þeirri umferð, fær leikmaðurinn ekki víti þar sem öll víti falla niður þegar umferð er aflýst.

(6)
Að fjarlægja tímabundið vatn eða lausung af flötum

Ef tímabundið vatn, sandur, lauf eða önnur lausung safnast upp á flöt á meðan umferð er leikin getur nefndin gert það sem þarf til að lagfæra ástandið, til dæmis með því að nota sköfur eða með því bursta eða blása flötina. Nefndin þarf ekki þarf að fresta leik á meðan þetta er gert.

Í slíkum tilvikum getur nefndin, þegar nauðsyn ber til, fengið aðstoð leikmanna til að fjarlægja lausungina eða sandinn. Hins vegar er leikmaður brotlegur við reglu 8.1 ef hann fjarlægir tímabundið vatn úr leiklínu sinni án leyfis nefndarinnar.

Nefndin getur ákveðið að setja reglu til að skýra hvað eðlilegt væri að nefndarmenn, fulltrúar nefndarinnar (til dæmis vallarstarfsmenn) eða leikmenn megi gera til að fjarlægja tímabundið vatn á flötinni.

Sjá fyrirmynd staðarreglu J-2: Fyrirmynd staðarreglu sem leyfir að vatn sé fjarlægt af flötum með sköfum.

(7)
Leikur hafinn án vitneskju um að völlur er lokaður

Ef leikmenn í holukeppni hefja leik án þess að vita að völlurinn er lokaður og nefndin verður þessa áskynja síðar ætti leikurinn allur að fara fram að nýju þar sem leikur á lokuðum velli telst ógildur.