The R&A - Working for Golf
Niðurskurður. Riðlar. Endurröðun
Verklag nefnda
Fara í hluta
(1)
(2)
(3)
(4)
(5)
Skoða fleira

Hluti 6F
Hluti 7
6G
Niðurskurður. Riðlar. Endurröðun
(1)
Niðurskurður og nýir ráshópar

Í keppnum sem standa yfir í fleiri en eina umferð kunna keppnisskilmálar að kveða á um að:

 • Leikmönnum verði endurraðað í ráshópa í seinni umferðum, samkvæmt skori þeirra fram að því.
 • Keppendum verði fækkað fyrir síðustu umferð eða umferðir (oft kallað „niðurskurður“).

Í báðum tilvikum ætti nefndin að raða í nýja ráshópa og gefa þá út. Algengast er að leikmenn með hæstu skor hefji leik fyrstir og leikmenn með lægstu skor hefji leik síðastir, þótt nefndin geti vikið frá því fyrirkomulagi.

Nefndin getur ákveðið hvernig eigi að raða leikmönnum sem ljúka leik á sama heildarskori. Til dæmis getur nefndin ákveðið að fyrsti leikmaðurinn sem skilar tilteknu skori fái síðari rástíma en þeir sem ljúka umferð síðar á sama skori.

Ef ræst er af tveimur teigum í síðari umferðum (til dæmis helmingur keppenda byrjar á 1. holu og hinn helmingurinn á 10. holu), getur nefndin ákveðið að raða ráshópum þannig að keppendur með hæstu skor séu ræstir síðastir á öðrum teignum (til dæmis á 10. teig) og leikmennirnir með lægsta skorið séu ræstir síðastir á hinum teignum (til dæmis á 1. teig). Þetta leiðir til þess að leikmenn í miðri skortöflunni væru ræstir fyrstir á báðum teigum.

(2)
Leik hætt og frávísanir í holukeppni

Ef leikmaður í holukeppni hættir í keppninni áður en næsti leikur hans hefst og nefndin hefur ekki ákvarðað í keppnisskilmálum hvernig slíkt skuli meðhöndlað hefur nefndin eftirfarandi möguleika:

 • Úrskurðað næsta mótherja leikmannsins sigurvegara.
 • Ef leikmaðurinn hættir í keppninni fyrir fyrsta leik sinn:
  • Ef tími vinnst til, ákvarða nýja keppnisröð.
  • Skipta leikmanninum út með varamanni.
  • Ef leikmennirnir unnu sér rétt til þátttöku í höggleiksundankeppni skipta leikmanninum út með leikmanninum sem nú er síðasti leikmaður með rétt til að leika í holukeppninni.
 • Ef leikmaðurinn hættir í keppninni eftir fyrsta eða síðari leik sinn, getur nefndin:
  • Úrskurðað næsta mótherja leikmannsins sigurvegara.
  • Látið alla leikmenn sem féllu úr keppninni eftir tap gegn leikmanninum leika umspil um sæti hans.

Ef báðir leikmenn í úrslitum holukeppni hljóta frávísun getur nefndin ákveðið að ljúka keppninni án sigurvegara. Einnig getur nefndin valið að láta þá sem töpuðu fyrir leikmönnunum leika um sigur í keppninni.

Ef leikmaður í holukeppni hlýtur frávísun ætti leikmaðurinn að fá öll þau verðlaun sem hann hefur unnið fyrr í keppninni, til dæmis fyrir að vinna undankeppni í höggleik.

(3)
Leik hætt og frávísanir í höggleik

Ef leikmaður hættir eða fær frávísun fyrir fyrstu umferð í keppni (til dæmis með því að mæta of seint á teig) getur nefndin skipt leikmanninum út með öðrum leikmanni sem ekki er á þátttakendalista (oft kallaður varamaður eða keppandi á biðlista), ef hann er tiltækur. Eftir að leikmaður hefur hafið fyrstu umferð sína ætti ekki að skipta honum út með varamanni.

(4)
Undankeppni fyrir holukeppni

Þegar undankeppni í höggleik er leikin til að ákvarða röðun í riðla í holukeppni getur nefndin valið að útkljá jafntefli í tilteknum sætum með hendingu, með samanburði skorkorta eða með umspili. Þetta ætti að tilgreina í keppnisskilmálum.

(5)
Misbeiting forgjafar hefur áhrif á röðun í holukeppni

Í höggleik sem undankeppni holukeppni, ef nefndin misbeitir forgjöf leikmanns á skorkorti sem leiðir til rangrar röðunar í holukeppninni ætti nefndin að afgreiða málið á eins sanngjarnan hátt og hægt er. Nefndin ætti að íhuga að breyta röðuninni og ógilda leiki sem breytingin hefur áhrif á.

Ef villan uppgötvast eftir að önnur umferð holukeppninnar er hafin er of seint að leiðrétta röðunina.