The R&A - Working for Golf
Eftir keppnina
Verklag nefnda
Fara í hluta
A
(1)
(2)
B
C
D
Skoða fleira

Hluti 6G
Hluti 8
7
Eftir keppnina
A
Að útkljá jafntefli í höggleik

Eftir að öllum skorkortum hefur verið skilað í höggleikskeppni kann nefndin að þurfa að útkljá jafntefli í fyrsta eða öðrum sætum. Aðferðin við að útkljá jafntefli ætti að vera tilgreind fyrir fram í keppnisskilmálum (sjá hluta 5A(6)). Sé það gert ætti nefndin að fylgja þeim skilmálum.

Í undankeppni þar sem tiltekinn fjöldi leikmanna mun halda áfram í holukeppni, eða þegar keppnin er undankeppni fyrir aðra keppni, getur nefndin þurft að skipuleggja eitt eða fleiri umspil til að ákvarða hverjir komast áfram.

(1)
Frávísun eða uppgjöf í umspili höggleiks

Í umspili höggleiks milli tveggja leikmanna, ef annar þeirra hlýtur frávísun eða gefur umspilið er ekki nauðsynlegt að hinn leikmaðurinn ljúki umspilsholunni eða -holunum til að verða lýstur sigurvegari.

(2)
Sumir keppendur ljúka ekki umspili í höggleik

Í umspili höggleiks milli þriggja eða fleiri leikmanna, ef þeir ljúka ekki allir umspilsholunni eða -holunum, ráðast úrslit umspilsins af því í hvaða röð leikmennirnir hlutu frávísun eða ákváðu að hætta leik.

B
Frágangur úrslita

Eins og fram kemur í hluta 5A(7) er mikilvægt að nefndin skýri í keppnisskilmálum hvenær og hvernig úrslit keppninnar eru endanleg því þetta hefur áhrif á hvernig nefndin mun leysa úr álitamálum um reglurnar eftir að leik er lokið, bæði í holukeppni og höggleik (sjá reglu 20).

Nefndin ætti að tryggja að hún sinni skyldum sínum með því að afgreiða úrslit í holukeppni eða höggleik í samræmi við keppnisskilmála. Til dæmis:

  • Ef úrslit leiks í holukeppni teljast endanleg þegar nefndin hefur skráð þau á opinbera skortöflu ætti nefndin að tryggja að það sé gert eins fljótt og unnt er.
  • Ef fyrir liggja spurningar varðandi golfreglurnar sem kunna að hafa áhrif á úrslit höggleikskeppni ætti nefndin að útkljá málin, jafnvel þótt það leiði til þess að fresta þurfi lokum keppninnar og að lýsa sigurvegara.
C
Verðlaunaafhending

Ef áhugamenn taka þátt í keppninni ætti nefndin að gera sér grein fyrir reglum um hvaða verðlaun áhugakylfingar mega þiggja án þess að brjóta reglur um áhugamannaréttindi. Nefndir ættu að taka mið af reglum um áhugamannaréttindi og úrskurðum um reglur um áhugamannaréttindi en reglurnar og úrskurðina má skoða á vefsíðunni RandA.org. Eftirfarandi eru nokkrar mikilvægar takmarkanir:

  • Áhugakylfingur má ekki keppa um peningaverðlaun.
  • Áhugakylfingur má ekki þiggja verðlaun eða ávísanir sem að smásöluvirði eru hærri en leyft er af stjórnvaldinu sem ber ábyrgð á að framfylgja áhugamannareglunum í því landi þar sem keppnin fer fram.
  • Áhugakylfingur má þiggja táknræn verðlaun af hvaða verðmæti sem er. Dæmi um táknræn verðlaun er hlutur úr gulli, silfri, keramiki, gleri eða slíku sem er varanlega og áberandi ágrafinn, svo sem stytta, bikar, verðlaunapeningur eða platti.
  • Áhugakylfingur má þiggja verðlaun að hvaða verðmæti sem er, þar á meðal peningaverðlaun, fyrir holu í högg við leik í umferð.
D
Álitamál um skor eða reglurnar sem vakna eftir að keppni lýkur

Ef athygli nefndarinnar er vakin á álitamáli um reglurnar eftir að keppninni lýkur ræðst niðurstaðan ef eðli vandamálsins. Ef álitamálið snýst um að leikmaður hafi hugsanlega farið rangt að samkvæmt reglunum ætti nefndin að fylgja reglu 20.2e til að ákvarða hvort beita verði leikmanninn frávísun.

Ef álitamálið snýr að stjórnunarlegum mistökum nefndarinnar ætti hún að leiðrétta mistökin og tilkynna ný úrslit. Ef með þarf ætti nefndin að endurheimta verðlaun sem hafa verið afhent fyrir mistök og afhenda þau réttum leikmönnum.

Eftirfarandi eru dæmi um stjórnunarleg mistök:

  • Að heimila leikmanni þátttöku þótt hann uppfylli ekki þátttökuskilyrði.
  • Að reikna rangt heildarskor leikmanns.
  • Að beita forgjöf á rangan hátt eða að sleppa leikmanni úr tilkynningu um lokaúrslit.
  • Að beita rangri aðferð við að skera úr um jafntefli.