The R&A - Working for Golf
Fyrirmyndir staðarreglna
Verklag nefnda
Skoða fleira

Hluti 7
Hluti 8A
8
Fyrirmyndir staðarreglna

Þessi hluti hefur að geyma samþykktar fyrirmyndir staðarreglna, sem nefndir geta notað:

 • Hægt er að nota fyrirmyndirnar í heild sinni en einnig er hægt að nýta þær sem dæmi um hvernig skrifa eigi tilteknar gerðir staðarreglna.
 • Staðarreglur eru því aðeins heimilar að þær fylgi þeim viðmiðum sem fram koma í þessum hluta.
 • Nefndir eru hvattar til að nota textann sem hér er, falli hann að viðkomandi aðstæðum, til að fækka þeim tilvikum að leikmenn fái afhentar ólíkar útgáfur af sömu staðarreglunni, á milli valla eða keppna.
 • Nefndin ætti að tryggja að staðarreglurnar séu tiltækar leikmönnum, á skorkortinu, á tilkynningatöflu eða á annan hátt.
 • Þar sem styttri útgáfa staðarreglu er gefin út, t.d. aftan á skorkorti, ætti nefndin að tryggja að ítarlegri útgáfa textans sé tiltæk, t.d. á tilkynningatöflu eða á vefsíðu.
 • Ef annað er ekki tekið fram ætti víti fyrir brot á staðarreglu að vera almenna vítið.

Grundvallaratriði við gerð staðarreglna:

 • Staðarreglur hafa sömu stöðu og golfreglurnar fyrir viðkomandi keppni eða völl.
 • Nefndir eru hvattar til að nýta staðarreglur eingöngu til að fást við þær aðstæður og þau viðmið sem fjallað er um í þessum hluta og í hluta 5.
 • Ef staðarregla er sett vegna tímabundinna aðstæðna ætti að fella hana úr gildi um leið og aðstæðurnar breytast þannig að staðarreglunnar sé ekki lengur þörf.
 • Ef nefndin breytir orðalagi fyrirmyndar staðarreglu til að falla að tilteknum þörfum vallarins eða keppninnar þarf nefndin að tryggja að breytingarnar séu innan ramma þess sem leyft er af fyrirmynd staðarreglunnar og að þær falli að tilgangi fyrirmyndarinnar.
 • Til að tryggja að leikið sé í samræmi við golfreglurnar má nefndin ekki nota staðarreglu til að ógilda eða breyta golfreglu, af þeirri einu ástæðu að nefndin telur að reglan ætti að vera öðruvísi en hún er.
 • Þegar leikmaður leikur umferð til forgjafar er grunnreglan sú að hann þarf að leika samkvæmt golfreglunum. Ef nefndin heimilar leikmönnum að leika á einhvern þann hátt sem víkur umtalsvert frá golfreglunum kann leikmönnum að vera óheimilt að skila skorinu til forgjafar. Varðandi leyfileg frávik, sjá reglur eða leiðbeiningar forgjafarkerfisins.

Telji nefndin að staðbundnar óeðlilegar aðstæður sem kunni að hamla sanngjörnum leik kalli á staðarreglu sem ekki er fjallað um hér ætti hún að:

 • Kanna vefsíðuna RandA.org og athuga hvort þar séu viðbótarstaðarreglur sem ná yfir aðstæðurnar, eða
 • Hafa beint samráð við R&A.

Fyrirmyndir staðarreglnanna í hverjum flokki eru númeraðar, t.d. A-1, A-2 o.s.frv.

Á undan hverri fyrirmynd fylgir texti um tilgang fyrirmyndarinnar. Ef nefnd breytir orðalagi fyrirmyndar að staðarreglu til að falla að sértækum aðstæðum á vellinum eða í keppninni ætti nefndin að tryggja að slíkar breytingar séu í samræmi við tilgang staðarreglunnar.

Fyrirmyndir staðarreglnanna eru flokkaðar þannig:

A. Út af og vallarmörk

B. Vítasvæði

C. Glompur

D. Flatir

E. Sérstakar eða breyttar lausnaraðferðir

F. Óeðlilegar vallaraðstæður og hlutar vallar

G. Takmarkanir varðandi notkun sérstaks útbúnaðar

H. Skilgreina hver má gefa leikmönnum ráð

I. Skilgreina hvenær og hvar leikmenn mega æfa

J. Ferli vegna slæms veðurs og frestunar leiks

K. Leikhraðareglur

Þessar fyrirmyndir staðarreglna spanna þær aðstæður eða vandamál sem eru það algengar að það réttlætir gerð sérstakrar fyrirmyndar. Í öllum öðrum tilvikum, þar sem staðarregla er heimil en fyrirmynd slíkrar staðarreglu er ekki lýst ætti nefndin að semja staðarregluna í eins skýru og einföldu formi og hægt er. Nefndinni er þó óheimilt að semja staðarreglu sem brýtur í bága við grunnhugmyndir golfreglnanna. Í hluta 8L er fjallað nánar um óheimilar staðarreglur.

Ef staðarregla er samin á grunni fyrirmyndar staðarreglu í þessum hluta getur nefndin leitað aðstoðar R&A um túlkun staðarreglunnar.