Prenta hluta
12
Glompur
Tilgangur reglu: Regla 12 er sérregla fyrir glompur, sem eru sérstaklega útbúin svæði til að reyna á hæfni leikmannsins við að leika bolta úr sandi. Til að tryggja að leikmaðurinn takist á við þessa áskorun eru nokkrar takmarkanir á að snerta sandinn áður en höggið er slegið og um hvar megi taka lausn ef bolti er í glompu.
12
Glompur
12.2

Að leika bolta í glompu

12.2a/1
Bót verður við að fjarlægja lausung eða hreyfanlegar hindranir í glompu
Þegar lausung eða hreyfanlegar hindranir eru fjarlægðar í glompu kann sandur að hreyfast til. Það er vítalaust þótt þetta bæti aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið ef athafnirnar við að fjarlægja lausungina eða hreyfanlegu hindrunina voru eðlilegar (regla 8.1b(2)). Til dæmis fjarlægir leikmaður köngul nærri bolta sínum og bætir aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið með því að draga köngulinn frá boltanum, þannig að köngullinn ryður frá sér sandhrúgu af svæði fyrirhugaðrar sveiflu leikmannsins. Leikmaðurinn hefði getað notað aðra aðferð við að fjarlægja köngulinn, sem hefði haft minni röskun í för með sér (svo sem með því að lyfta könglinum beint upp án þess að draga hann frá boltanum). Þar sem athafnir hans eru ekki eðlilegar undir þessum kringumstæðum fær hann víti fyrir brot á reglu 8.1a (Að bæta aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið).
12.2b/1
Regla 12.2b á við um sandhrúgu frá dýraholu í glompu
Ef bolti leikmanns liggur í glompu, á eða nærri sandhrúgu sem er hluti dýraholu eiga takmarkanirnar í reglu 12.2b(1) við um að snerta sandinn og sandhrúguna. Hins vegar má leikmaðurinn taka lausn frá dýraholunni (sem er óeðlilegar vallaraðstæður) samkvæmt reglu 16.1c.
12.2b/2
Hvort leikmaður megi krafsa í glompu
Skýringar 8.1a/7 staðfestir að leikmaður má krafsa hvar sem er á vellinum (þar á meðal í glompu), vítalaust, til að ákvarða hvort trjárætur, steinar eða hindranir kunni að trufla högg hans, svo fremi að leikmaðurinn bæti ekki aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið. Til dæmis, þegar bolti leikmanns stöðvast nærri niðurfalli í glompu má leikmaðurinn nota til að krafsa í sandinn og ákvarða umfang niðurfallsins og hvort það muni trufla högg hans. Hins vegar, ef tilgangurinn með krafsinu er að prófa ástand sandsins hefur leikmaðurinn brotið reglu 12.2b(1).
12.2b/3
Regla 12.2 á áfram við þegar leikmaður hefur lyft bolta sínum úr glompu til að taka lausn en ekki enn ákveðið hvort hann ætli að taka lausn innan eða utan glompunnar
Ef leikmaður hefur lyft boltanum úr glompu til að taka lausn samkvæmt reglu en ekki enn ákveðið hvaða lausnaraðferð hann ætlar að nota eru takmarkanir reglu 12.2b(1) enn í gildi. Til dæmis, ef bolti leikmanns er ósláanlegur í glompu eftir teighögg og leikmaðurinn er að hugleiða hvort hann ætli til baka á teiginn gegn fjarlægðarvíti, taka lausn innan glompunnar eða taka aftur-á-línu lausn utan glompunnar, er leikmaðurinn brotlegur við reglu 12.2b ef hann vísvitandi prófar ástand sandsins í glompunni eða slær æfingasveiflu í sandinn. Hins vegar, á sama hátt og að regla 12.2b(1) á ekki lengur við eftir að leikmaðurinn hefur leikið bolta og boltinn er ekki lengur í glompunni, á regla 12.2b(1) ekki lengur við eftir að leikmaðurinn hefur ákveðið að taka lausn utan glompunnar, svo fremi að lausnin sé svo tekin utan glompunnar.
SKOÐA FLEIRA