Prenta hluta
5
Áður en keppnin hefst
5
Áður en keppnin hefst
Misjafnt er eftir völlum og keppnum úr hversu miklum aðföngum nefndir hafa að spila og því getur tiltekin nefnd e.t.v. ekki útfært allar tillögur sem hér koma fram. Í slíkum tilvikum verður nefndin að forgangsraða áherslum sínum fyrir hverja keppni. Undirbúningur áður en keppni hefst er óumdeilanlega mjög mikilvægur svo að keppnin gangi vel fyrir sig. Skyldur nefndarinnar við undirbúning felast m.a. í:
A

Að ákvarða skilmála keppninnar

Keppnisskilmálar ákvarða fyrirkomulag hverrar keppni, þar á meðal hverjir hafi þátttökurétt, hvernig og fyrir hvaða tíma þeir skrá sig, hver er tímaáætlun og form keppninnar og hvernig jafntefli verði útkljáð. Nefndin ber ábyrgð á að:
  • Ákveða skýra og ótvíræða skilmála fyrir hverja keppni.
  • Tryggja að þessir skilmálar séu aðgengilegir leikmönnum fyrir keppni.
  • Túlka skilmálana ef spurningar vakna.
Nefndin ætti ekki, nema í algjörum undantekningartilvikum, að breyta keppnisskilmálum eftir að keppnin er hafin. Hver leikmaður ber ábyrgð á að þekkja keppnisskilmálana og að fylgja þeim. Dæmi um orðalag keppnisskilmála má finna á vefsíðunni RandA.org.
(1)
Þátttökuréttur
Nefndin getur sett keppnisskilmála sem takmarka hverjir megi taka þátt í keppninni. a. Kyn Keppni getur takmarkast við leikmenn af tilteknu kyni. b. Aldur Keppni getur takmarkast við leikmenn á tilteknu aldursbili. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að taka fram við hvaða dagsetningu er miðað. Til dæmis:
  • Í unglingakeppni þar sem leikmenn mega ekki vera eldri en 18 ára gætu keppnisskilmálar kveðið á um að leikmaður þurfi að vera 18 ára eða yngri á fyrsta degi ársins eða á öðrum degi svo sem á áætluðum lokadegi keppninnar. Í keppnum eldri kylfinga þar sem leikmenn verða að vera 55 ára eða eldir, gætu skilmálar tiltekið að leikmaður þurfi að hafa náð 55 ára aldri á eða fyrir fyrsta dag keppninnar.
c. Staða áhugaréttinda Keppni getur verið takmörkuð við áhugaleikmenn eingöngu, atvinnumenn eingöngu eða heimilað þátttöku allra leikmanna sem keppa innbyrðis. Þegar keppni er opin öllum leikmönnum, ætii nefndi að biðja leikmenn um að tilgreina stöðu áhugaréttinda (t.d. "áhugamaður") fyrir keppnina, til dæmis á skráningarblaði d. Mörk forgjafar Nefndi getur sett skilyrði og/eða takmörk á forgjöf þeirra sem er heimil þátttaka í keppninni. Þar á meðal:
  • Sett efri eða neðri mörk á forgjöf.
  • Í liðakeppnum, svo sem fjórmenningi eða fjórleik:
    • Ákveðið hámarksmun forgjafar hjá samherjum. Nefndinni er heimilt að lækka forgjöf þess leikmanns sem er með hærri forgjöfina til að uppfylla kröfurnar, eða
    • takmarka hámark samanlagðrar forgjarfar samherja. Nefndin getur einnig valið að lækka forgjöf annars eða beggja leikmannanna til að uppfylla kröfurnar.
  • Ef keppni er fleiri en ein umferð sem leiknar eru á einum degi eða samliggjandi dögum, skal tekið fram hvort leikmaður leiki með sömu forgjöf alla keppnina eða hvort forgjöf leikmanns skuli uppfærð eftir hverja umferð. Mælt er með að forgjöf leikmanna haldist óbreytt milli slíkra umferða.
e. Búseta eða aðild Nefndin getur takmarkað þátttöku leikmanna við búsetu eða fæðingarstað viðkomandi sýslu, ríkis eða lands eða aðrar landfræðilegar skilgreiningar. Hún getur einnig krafist að leikmenn séu félagar í tilteknum klúbbi, samtökum eða golfsambandi.
(2)
Skilmálar um skráningu og dagsetningar
Tilgreina ætti hvernig og á hvaða tímabili leikmenn eigi að skrá sig. Dæmi:
  • Aðferð skráningar, til dæmis útfylling rafræns forms, skil á skráningarblaði með pósti eða ritun nafns á þátttökublað á tilteknum tíma áður en leikmaður hefur leik.
  • Hvernig og hvenær eigi að greiða þátttökugjald.
  • Hvenær skráning þarf að vera móttekin. Nefndin getur hætt að taka við skráningum á tilteknum degi eða heimilað leikmönnum að skrá sig fram að upphafi keppninnar.
  • Aðferð sem verður notuð við að velja þátttakendur þegar of margir skrá sig, svo sem að velja þá þátttakendur sem skráðu sig fyrst, með undankeppni eða velja þátttakendur með lægstu forgjöf.
(3)
Form, þar á meðal veitt forgjöf
Tilgreina ætti eftirfarandi atriði varðandi form keppninnar, eftir þörfum:
  • Leikdagar eða, ef um holukeppni er að ræða yfir lengri tíma, dagsetningu þegar hverjum leik þarf að vera lokið.
  • Form keppni (til dæmis holukeppni, höggleikur eða höggleikur sem undankeppni fyrir holukeppni).
  • Fjöldi og röð hola í umferð.
  • Fjöldi umferða, þar á meðal hvort niðurskurði verði beitt.
  • Ef um niðurskurð er að ræða, hvenær hann fer fram, hvort allir sem eru jafnir í síðasta sæti komist áfram og hversu margir leikmenn muni halda leik áfram í síðari umferðum.
  • Af hvaða teigum verði leikið. Fyrir keppni með forgjöf má nefndin tilgreina af hvaða teigum leikmenn skuli leika eða að teigar skuli taka mið af forgjöf leikmanna, kyni og/eða aldri. Sem valmöguleiki, má nefndin heimila leikmönnum að velja sér teiga.
  • Úthlutun forgjafar, þar á meðal holuröð þar sem forgjafarhögg verða veitt eða gefin.
  • Ef um marga riðla er að ræða, hvernig raðað verður í riðla, sjá hluta 5G(1).
  • Hvaða verðlaun verði veitt (þar með talið hverjir geti unnið til verðlaunanna). Í keppnum áhugamanna ætti nefndin að tryggja að verðlaun til áhugamannanna séu í samræmi við það sem leyft er í áhugamannareglunum.
(4)
Skilmálar vegna annarra leikforma
a. Breyttar aðferðir við skor Þegar leika á Stableford, hámarksskor eða par/skolla kunna keppnisskilmálar að þurfa tiltekna hluti ítengslum við útreikning punkta eða hámarksfjölda högga sem leikmaður getur fengið á hverri holu. b. Stableford Stableford er leikform í höggleik þar sem leikmenn fá punkta á hverri holu með samanburði skors leikmannsins við fast viðmiðunarskor á holunni. Fasta viðmiðunarskorið er par nema nefndin ákveði annað (sjá reglu 21.1b). Ef nefndin ákveður annað viðmiðunarskor getur hún ákveðið í keppnisskilmálum að það sé skolli, fugl eða eitthvað annað fast skor. c. Hámarksskor Þegar leikformið er hámarksskor ættu keppnisskilmálar að tilgreina hámarksfjölda högga semleikmaður getur skorað á hverri holu (sjá reglu 21.2). Hámarkið má setja á einhvern eftirfarandi vegu:
  • Sem viðmið við par, til dæmis tvöfalt par.
  • Sem fasta tölu, svo sem 8, 9 eða 10.
  • Sem viðmið við forgjöf leikmannsins, svo sem nettó skramba.
Þegar ákveða á hvert hámarkið ætti að vera í hámarksskorkeppnum ætti nefndin að huga að eftirfarandi:
  • Hámarkspar á holunum sem leika á. Til dæmis á par 3 holu velli kynni að vera viðeigandi að setja hámarksskor á holu fast við 6 högg. Hins vegar ef á vellinum eru par 5 holur væru 6 högg sem hámarksskor óeðlilega lágt.
  • Geta leikmannanna sem taka þátt í keppninni. Til dæmis í nýliðakeppnum ætti hámarksskorið að vera hæfilegt til að gefa leikmönnum raunhæft tækifæri á að ljúka holunni en þó þannig að þeir séu hvattir til að hætta leik á holu þegar þeir lenda í miklum vandræðum.
  • Hvort skor eigi að gilda til forgjafar. Ef nefndin vill að keppnin gildi til forgjafar ætti hámarksskor á holu að vera nettó skrambi eða hærra
d. Par/skolli Þegar leikformið er par/skolli ættu keppnisskilmálar að tilgreina fasta skorið sem leikmenn bera skor sitt á holu við til að ákvarða hvort leikmaðurinn vinnur eða tapar holu. Í par keppnum væri fasta skorið að jafnaði par og í skolla keppnum að jafnaði skolli (eitt högg yfir pari) e. Önnur leikform Mörg önnur leikform eru til, svo sem Scrambles og Greensomes. Sjá hluta 9 og/eða vefsíðuna RandA.org varðandi frekari upplýsingar um þessi og önnur leikform. f. Sveitakeppnir Þegar leikformið felur í sér sveitakeppni ætti nefndin að íhuga hvort setja þurfi viðbótarskilmála. Dæmi:
  • Takmarkanir varðandi þjálfara eða ráðgjafa (sjá fyrirmyndir staðarreglna, hluta 8H).
  • Í holukeppni:
    • Leikröð liðsfélaga, til dæmis hvort forgjöf ráði leikröð eða hvort liðsstjórinn ákveði leikröð.
    • Hvort ásættanlegt er að leikir endi jafnir eða hvort alltaf eigi að leika þar til sigurvegari liggur fyrir.
    • Fjöldi stiga fyrir sigur eða jafntefli.
    • Í keppnum margra sveita, hvernig sigurvegarinn er ákvarðaður ef tvær eða fleiri sveitir enda jafnar.
    • Ef sumum leikjum er lokið en ekki er hægt að ljúka öðrum á tilskyldum degi vegna myrkurs eða veðurs ættu keppnisskilmálar að tilgreina hvernig farið verði með úrslit leikjanna. Til dæmis getur nefndin ákveðið að úrslit leikja sem er lokið standi en aðrir leikir endi með jafntefli eða verði leiknir að nýju síðar. Eða að leika eigi alla leiki að nýju og að breyta megi frá upphaflegri liðsskipan.
    • Hvor ljúka eigi leikjum sem enn eru í gangi þegar sveit hefur unnið viðureign eða keppni.
  • Tilgreina hvernig skuli meðhöndla leiki þar sem einn eða fleiri leikmenn geta ekki hafið keppni eða lokið keppni af einhverri ástæðu (svo sem vegna veikinda). Til dæmis gæti nefndi ákveðið úrslit slíkra leikja þannig að þeir endi jafnir eða að mótherjinn vinni leikinn. Ef unnar eða tapaðar holur eru teknar með í útreikning keppninnar, getur nefndin ákveðið úrslit slíkra leikja, til dæmis 6&5.
  • Í höggleik:
    • Fjöldi skora sem telja í heildarskori hverrar sveitar.
    • Ef skor sem eiga að gilda byggja á 18 holum eða með samanburði einstakra hola.
    • Hvernig útkljá eigi jafntefli í heildarkeppninni, til dæmis með umspili, samanburði skorkorta (sjá hluta 5A(6))eða með því að telja með skor sem ekki töldu.
(5)
Hvenær skorkorti hefur verið skilað
Í höggleik eru leikmenn ábyrgir, samkvæmt reglu 3.3b, fyrir að tryggja nákvæmni skors síns og að skila skorkortinu strax eftir að umferðinni lýkur. Nefndin ætti að upplýsa leikmenn um hvar skila eigi skorkortunum, tryggja að einhver sé tiltækur til að leysa úr hugsanlegum álitamálum sem leikmennirnir kunna að bera upp um reglurnar og að lokum að yfirfara skorin. Ef mögulegt er ætti að útbúa kyrrlátt afmarkað svæði fyrir leikmennina til að yfirfara skor sín, ræða við meðlimi nefndarinnar eftir þörfum og skila skorkortunum. a. Tilgreina hvenær skorkorti telst skilað Nefndin ætti að tilgreina hvenær skorkortinu telst skilað. Eftirfarandi eru nokkrir möguleikar:
  • Skilgreina skilasvæði skorkorta og leyfa leikmanni að breyta skorkortinu þar til hann yfirgefur svæðið. Þetta þýddi að jafnvel þótt leikmaðurinn hafi afhent dómara eða starfsmanni skorkortið væri samt hægt að breyta því ef leikmaðurinn er enn innan svæðisins.
  • Útvega kassa sem leikmennirnir geta sett skorkortin í og þeim telst þá skilað um leið og leikmennirnir hafa sett þau í kassann. Þessi leið býður frekar heim hættunni á að leikmenn skili röngum skorkortum en kann að vera besta útfærslan ef fáir starfsmenn eru til reiðu eða ef margir leikmenn ljúka leik á sama tíma (til dæmis þegar ræst er út af öllum teigum).
  • Á árinu 2024 staðfestu regluyfirvöld að golfreglurnar heimili að nota tímamörk sem reglu fyrir skil á skorkortum (til dæmis 15 mínútur) en eftir tilskilinn tíma teljist skorkort afhent. (Viðbót janúar 2025)
    • Slík regla heimilar leikmönnum að koma aftur á skilasvæði skorkorta og leiðrétta mistök í skráningunni innan tilskilins tíma, en breytir þó ekki þeirri reglu að leikmenn skuli fara strax á skilasvæði skorkorta eftir að hafa lokið umferð.
    • Þegar slík regla er notuð ætti nefndin að skilgreina bæði hversu langur tími er veittur og einnig hvenær tímataka hefst, svo sem:
      • leikmaðurinn hefur yfirgefi skilasvæði skorkorta,
      • ráshópurinn hefur lokið leik um síðustu holu umferðar, eða
      • skorkort leikmannsins hefur verið skráð rafrænt inn í skráningarkerfið.
b. Að óska eftir að leikmenn skrái aðrar upplýsingar á skorkort Nefndin getur falið leikmönnum að skrá forgjöf sína á skorkortin (sjá fyrirmynd staðarreglu L-2). Nefndin getur óskað eftir því að leikmenn aðstoði nefndina með því að ljúka verkefnum í tengslum við frágang skorkorta, sem eru á ábyrgð nefndarinnar. Nefndin má ekki beita vítum samkvæmt golfreglunum þótt leikmaður sinni ekki þessum óskum eða verði á mistök, en nefndin getur beittagaviðurlögum gagnvart leikmanni sem endurtekið sinnir ekki slíkum óskum. Til dæmis getur nefndin óskað eftir að leikmenn:
  • Leggi saman skorið eða, í fjórleikskeppni, ákvarði hvaða skor gildir fyrir liðið.
  • Skrái á skorkortið fjölda punkta á hverri holu í Stableford keppni.
  • Skrái hvort hola vannst, tapaðist eða var jöfn í par eða skolla keppnum.
  • Skrái tilteknar upplýsingar á skorkortið, svo sem nafn, dagsetningu og heiti keppninnar.
Á sama hátt getur nefndin óskað eftir að leikmenn aðstoði nefndina með því að skrá skorið inn í tölvukerfi í lok umferðar, en ekki ætti að refsa leikmanninum samkvæmt golfreglunum þótt hann sinni ekki slíkum óskum eða geri mistök. Þó getur nefndin beitt agaviðurlögum, til dæmis í hegðunarreglum, gagnvart leikmanni sem endurtekið sinnir ekki slíkum óskum.
(6)
Hvernig jafntefli eru útkljáð
Í holukeppni og höggleik er hægt, með keppnisskilmálum, að breyta því hvernig jafntefli eru útkljáð. a. Holukeppni Ef leikur er jafn eftir lokaholuna er leikurinn framlengdur um eina holu í einu þar til sigurvegari liggur fyrir (sjá reglu 3.2a(4)), nema keppnisskilmálar kveði á um annað. Keppnisskilmálar ættu að tilgreina hvort leik getur lokið með jafntefli eða ef umspil eigi að fara fram með öðrum hætti en fram kemur í reglu 3.2a(4). Meðal möguleika er eftirfarandi:
  • Leikurinn endar með jafntefli.
  • Leikurinn er framlengdur á annarri holu en fyrstu holu.
  • Leikið verður umspil á tilteknum fjölda hola (svo sem 9 eða 18 holur).
Í holukeppni með forgjöf ætti að nota forgjafarröð hola til að ákvarða á hvaða holum forgjöfin er veitt eða þegin við leik viðbótarholanna, nema keppnisskilmálar kveði á um annað. Jafntefli í holukeppni ætti ekki að útkljá með umspili í höggleik. b. Höggleikur Keppnisskilmálar ættu að tilgreina hvort höggleikskeppni geti endað með jafntefli eða hvort leika eigi umspil eða bera saman skorkort til að ákvarða sigurvegara og raða í önnur sæti. Jafntefli í höggleik ætti ekki að útkljá með holukeppni. c. Umspil í höggleik Ef leika á umspil í höggleik ættu keppnisskilmálar að ákvarða eftirfarandi:
  • Hvenær umspilið verður haldið, til dæmis að það hefjist á ákveðnum tíma, eins fljótt og hægt er eftir að síðasti ráshópur lýkur leik eða síðar.
  • Hvaða holur verða leiknar í umspilinu og í hvaða röð þær skuli leiknar.
  • Fjöldi hola sem leikinn verður í umspilinu, til dæmis að leikinn verði bráðabani eða, ef leika á fleiri holur, svo sem 2, 4 eða 18, og hvað eigi að gera ef þá er enn jafntefli.
  • Í venjulegum höggleik með forgjöf, ef umspilið er styttra en 18 holur ætti fjöldi hola að ákvarða höggafjölda sem leikmaður fær í forgjöf. Til dæmis, ef ein hola er leikin ætti að draga 1/18 af forgjöfinni frá skorinu á umspilsholunni. Meðhöndlun brota af forgjöf ætti að vera samkvæmt reglum eða leiðbeiningum World Handicap SystemTM forgjafarkerfisins eða öðrum leiðbeiningum sem viðkomandi forgjafarnefnd útvegar.
  • Í umspili í forgjafarkeppnum þar sem tafla með holuröð er notuð, svo sem í fjórleik, par/skolla og Stableford keppnum, ætti að beita forgjafarhöggum á umspilsholunum eins og þeim var úthlutað í keppninni, samkvæmt töflunni með holuröð.
  • Leikmenn þurfa einungis að skila skorkortum vegna umspilsins ef nefndin afhendir þeim skorkort.
d. Samanburður skorkorta (talið til baka) Ef umspil er ekki fýsilegt geta keppnisskilmálar kveðið á um að jafntefli séu útkljáð með samanburði skorkorta. Jafnvel þótt sigurvegari sé ákvarðaður með umspili má nota samanburð skorkorta til að raða í önnur sæti. Í lýsingu á aðferðinni við samanburð skorkorta ætti einnig að koma fram hvað gert verði ef aðferðin leiðir ekki til niðurstöðu um sigurvegara. Ein aðferð við samanburð skorkorta er að ákveða sigurvegara á grunni besta skors í síðustu umferð. Ef leikmennirnir sem eru jafnir hafa sama skor í síðustu umferð, eða ef um eina umferð er að ræða, ræðst sigurvegarinn af skori á síðustu níu holunum, síðustu sex holunum, síðustu þremur holunum og að lokum af 18. holunni. Ef enn er jafnt ræðst sigurvegarinn af síðustu sex holunum, síðustu þremur holunum og síðustu holunni á fyrri níu holunum. Ef umferðin er styttri en 18 holur má aðlaga fjölda holanna sem notaður er við samanburðinn. Leiði þessi aðferð ekki til niðurstöðu getur nefndin lýst yfir jafntefli eða ákveðið sigurvegara með tilviljanakenndri aðferð (til dæmis með því að kasta upp smámynt). Samanburður skorkorta er stundum kallaður talið til baka eða skorkortaumspil. Önnur atriði til íhugunar:
  • Ef þessi aðferð er notuð í keppni þar sem ræst er út af fleiri en einum teig er mælt með að í stað orðalagsins „síðustu níu holur, síðustu sex holur o.s.frv.“, sé sagt holur 10-18, 13-18 o.s.frv.
  • Í keppnum með forgjöfum þar sem tafla með röðun forgjafarhögga er ekki notuð, svo sem í höggleik einstaklinga, ef aðferðin með síðustu níu, síðustu sex, síðustu þrjár holurnar er notuð ætti að draga helming, einn þriðja, einn sjötta o.s.frv. frá skori á þessum holum. Meðhöndlun brota af forgjöf ætti að vera samkvæmt reglum eða leiðbeiningum World Handicap SystemTM forgjafarkerfisins eða öðrum leiðbeiningum sem viðkomandi forgjafarnefnd útvegar.
  • Í keppnum með forgjöf þar sem tafla með röðun forgjafarhögga er notuð, svo sem í fjórleik höggleiks, par/skolla og Stableford keppnum ætti að deila forgjafarhöggum eins og þeim var úthlutað í keppninni.
(7)
Hvenær úrslit keppninnar eru endanleg
Mikilvægt er að nefndin skýri í keppnisskilmálum hvenær og hvernig úrslit keppninnar eru endanleg því þetta hefur áhrif á hvernig nefndin mun leysa úr álitamálum um reglurnar eftir að leik er lokið, bæði í holukeppni og höggleik (sjá reglu 20). a. Holukeppni Eftirfarandi eru dæmi um hvernig ákvarða má í keppnisskilmálum hvenær úrslit í holukeppni eru endanleg:
  • Þegar úrslitin er skráð á opinbera skortöflu eða á annan tilgreindan hátt, eða
  • Þegar úrslitin eru tilkynnt til einstaklings sem tilnefndur hefur verið af nefndinni.
Ef úrslit leiks teljast endanleg þegar þau hafa verið skráð á opinbera skortöflu kann nefndin að vera ábyrg fyrir að skrá nafn sigurvegarans á skortöfluna eða getur falið leikmönnum að gera það. Í sumum tilvikum er opinbera skortaflan áberandi mannvirki og í öðrum tilvikum kann hún að vera blað í golfbúðinni eða búningsklefa. Ef dómari hefur verið tilnefndur af nefndinni til að fylgja leik í holukeppni telst yfirlýsing dómara um úrslit leiks á flöt síðustu holu ekki vera opinber tilkynning, nema slíkt hafi verið ákvarðað í keppnisskilmálum. b. Höggleikur Eftirfarandi eru dæmi um hvernig ákvarða má í keppnisskilmálum hvenær keppni er lokið í höggleik:
  • Öll úrslit hafa verið birt á skortöflu eða tilkynningartöflu,
  • Tilkynnt hefur við um sigurvegara við afhendingu verðlauna, eða
  • Bikarinn hefur verið afhentur.
Í höggleik sem undanfara holukeppni kveður regla 20.2e(2) á um að höggleikshluta keppninnar sé lokið þegar leikmaður hefur slegið af teig til að hefja fyrsta leik sinn í holukeppninni.
(8)
Skilmálum keppni breytt eftir að keppni er hafin
Keppnisskilmálarnir ráða fyrirkomulagi keppninnar og því má aðeins breyta skilmálunum eftir að keppni er hafin í algjörum undantekningartilvikum. Eftirfarandi er dæmi um aðstæður þar sem keppnisskilmálum ætti ekki að breyta:
  • Þar sem leikmenn hefja umferð í þeirri trú að leika eigi tiltekinn fjölda hola og kunna að skipuleggja leik sinn samkvæmt því ætti ekki að breyta holufjöldanum í umferðinni eftir að umferðin er hafin. Til dæmis ef slæmt veður veldur því að leik er frestað eftir að allir leikmenn hafa lokið 9 holum af 18 ætti nefndin ekki að tilkynna úrslit samkvæmt þessum 9 holum.
Eftirfarandi eru dæmi um aðstæður þar sem mjög sérstakar kringumstæður réttlæta breytingu á keppnisskilmálum:
  • Ef aðstæður, svo sem slæmt veður, hafa áhrif á hversu margar umferðir er hægt að leika, eða hversu margar holur er hægt að leika í umferðum sem ekki eru hafnar, má breyta þeim til að taka tillit til aðstæðnanna. Á sama hátt ef þessar aðstæður valda því að ekki sé hægt að fylgja fyrirhuguðu skipulagi má breyta keppnisfyrirkomulaginu.
  • Aðferðinni við að útkljá jafntefli ætti ekki að breyta nema í algjörum undantekningartilvikum. Til dæmis, ef ætlunin var að halda holu fyrir holu umspil en veður kemur í veg fyrir að það sé hægt, má breyta aðferðinni og nota samanburð skorkorta í staðinn.
(9)
Lyfjamisnotkun
Í keppnisskilmálum getur þess verið krafist að leikmenn uppfylli reglur gegn lyfjamisnotkun. Það er á hendi nefndarinnar að útbúa og túlka eigin reglur gegn lyfjamisnotkun, þótt leiðbeiningar um gerð slíkra reglna séu yfirleitt fáanlegar hjá íþróttayfirvöldum.
B

Merking vallarins

Við undirbúning keppni ætti nefndin að tryggja að völlurinn sé nægilega vel merktur og breyta eða endurbæta merkingar sem notaðar eru við almennan leik. Þótt oftast sé engin ein „rétt“ leið við að merkja völl, getur skortur á merkingum leitt til aðstæðna þar sem leikmanni er ófært að fylgja reglunum eða að nefndin sé neydd til að taka ákvarðanir á meðan leikur stendur yfir sem gætu leitt til þess að leikmenn séu ekki jafnir gagnvart reglunum. Í hluta 2 eru ítarlegar leiðbeiningar og ráðleggingar um hvernig merkja eigi völlinn fyrir almennan leik. Það efni á jafnt við um merkingar fyrir keppni og ætti að hafa til hliðsjónar þegar keppnir eru undirbúnar. Ef merkingum vallarins er breytt fyrir keppni ætti nefndin að gæta þess að koma því skýrt á framfæri við leikmenn sem kunna að leika reglulega á vellinum, til að forðast misskilning og að leikmenn fari óvart rangt að. Til viðbótar upplýsingunum í hluta 2 kann nefndin að vilja huga að eftirfarandi atriðum:
(1)
Út af
Nefndin ber ábyrgð á að tryggja að öll vallarmörk séu vel merkt. Góð venja er að mála litla hvíta hringi utan um allar hvítar stikur eða aðra vallarmarkahluti sem hægt er að hreyfa á meðan leikur stendur yfir svo hægt sé að setja þá aftur á sama stað. Ef línur eða málningardoppur eru notaðar til að merkja vallarmörk ætti að halda þeim við þannig að þau séu auðsjáanleg. Staðarreglurnar ættu að skýra öll vallarmörk sem eru skilgreind á annan hátt en með stikum eða girðingum (sjá fyrirmynd staðarreglu A-1).
(2)
Vítasvæði
Nefndin kann að vilja endurmeta merkingar á sumum eða öllum vítasvæðum fyrir keppni.
  • Vítasvæði sem innihalda vatnasvæði ætti ekki að gera hluta af almenna svæðinu, en breyta má mörkum þeirra.
  • Fjarlægja má önnur vítasvæði eða bæta við vítasvæðum, eða færa jaðra vítasvæðanna til að breyta því hversu erfið holan er, svo sem ef nefndin telur viðeigandi að auka refsingu fyrir slæm högg. Til dæmis getur nefndin ákveðið að merkja þétt skógarsvæði sem vítasvæði í almennum leik en ekki í keppnum. Gæta þarf þess að slíkum breytingum sé komið skýrt á framfæri til leikmanna sem kunna að leika reglulega á vellinum.
  • Þegar vítasvæðum er bætt við eða þau fjarlægð ætti nefndin að taka mið af reglum og ábendingum sem kunna að koma fram í forgjafarkerfinu World Handicap System™ , eða öðrum leiðbeiningum sem viðkomandi forgjafarnefnd útvegar, til að meta hvort breytingarnar hafi áhrif á vallarmat.
  • Breyta má lit sumra vítasvæða úr rauðu í gult og öfugt. Í sumum keppnum gæti til dæmis verið ákjósanlegt að merkja vítasvæði nærri flöt gult ef nefndin vill ekki leyfa þann möguleika að láta bolta falla flatarmegin við vítasvæði þegar bolti hefur rúllað til baka inn í vítasvæðið. Í sumum tilfellum getur einnig verið skynsamlegt að setja fallreit sem viðbótarkost, svo sem vegna flatar á eyju þar sem leikmenn þurfa að slá löng högg yfir vatn.
  • Í almennum leik kunna að vera tiltölulega fáar stikur á vellinum til að merkja vítasvæði. Einnig geta stikur hafa horfið sem getur leitt til þess að hlutar vítasvæðis eru utan merkta svæðisins. Fara ætti yfir allar stikur fyrir keppni og bæta við stikum ef þörf krefur til að tryggja að vítasvæðin séu merkt á fullnægjandi hátt fyrir keppnina.
  • Góð venja er, þegar aðstæður leyfa, að mála rauðar eða gular línur umhverfis vítasvæðin í stað þess að reiða sig eingöngu á stikur. Línur tryggja að rétt svæði séu innan og utan vítasvæðisins, jaðrarnir munu ekki breytast þótt stika hverfi og leikmaður á auðvelt með að ákvarða hvar hann eigi að taka lausn. Venjulega þarf færri stikur þegar lína hefur verið máluð.
(3)
Glompur
Á flestum völlum ætti nefndin ekki að þurfa að gera neitt sérstakt til að undirbúa glompur fyrir keppni. Raka ætti glompurnar að morgni keppninnar og ganga ætti frá hrífum þar sem nefndin kýs (sjá hluta 2D). Ef jaðrar glompanna eru óskýrir ætti nefndin að hugleiða hvort hægt sé að skýra þá betur (annaðhvort af vallarstarfsmönnum eða með staðarreglu) til að forðast misskilning hjá leikmönnum og dómurum.
(4)
Óeðlilegar vallaraðstæður og hlutar vallar
Nefndin ætti að fara yfir allan völlinn til að tryggja að öll svæði sem ættu að vera grund í aðgerð séu vel merkt. Einnig ætti að skýra stöðu allra hindrana eða hluta vallar í staðarreglum (sjá fyrirmynd staðarreglu F-1). Best er ef nefndin merkir alla grund í aðgerð áður en keppnin hefst. Þó getur nefndin skilgreint svæði sem grund í aðgerð á meðan umferð í holukeppni eða höggleik er leikin, ef aðstæður kalla á það. Þegar lausn er veitt frá slíkum ómerktum svæðum á meðan umferð er leikin ætti nefndin að merkja svæðið sem grund í aðgerð eins fljótt og hægt er til að tryggja að öllum öðrum leikmönnum á vellinum sé ljós breytt staða svæðisins.
(5)
Bannreitir
Ef einhverjir bannreitir eru á vellinum ætti nefndin að tryggja það þeir séu vel merktir. Nefndin kann einnig að vilja setja upp sérstakar auglýsingar við bannreitina til að tryggja að leikmönnum sé ljóst að þeir megi ekki leika þaðan.
(6)
Tímabundnar hindranir
Í keppnum er hugsanlegt að mannvirki svo sem tjöld eða áhorfendastúkur séu reistar. Staða slíkra mannvirkja þarf að vera skýrð í staðarreglum, annaðhvort sem óhreyfanlegar hindranir eða tímabundnar óhreyfanlegar hindranir (TÓH). Ef mannvirkin eru skilgreind sem TÓH ætti að nota staðarregluna um tímabundnar óhreyfanlegar hindranir (sjá fyrirmynd staðarreglu F-23). Staðarreglan veitir leikmanni viðbótarmöguleika á lausn þannig að hann þurfi ekki að leika fram hjá eða yfir hindrunina.
C

Staðarreglur

Nefndin ber ábyrgð á að ákveða hvort setja eigi staðarreglur og að tryggja að þær séu í samræmi við grundvallaratriðin í hluta 8. Staðarregla er frávik frá golfreglu eða viðbótarregla sem nefndin setur vegna almenns leiks eða tiltekinnar keppni. Nefndin verður að tryggja að allar staðarreglur séu aðgengilegar leikmönnum, hvort sem er á skorkorti, sérstöku blaði, tilkynningatöflu eða á vefsíðu vallarins. Við mat á því hvort setja eigi staðarreglu ætti nefndin að hafa eftirfarandi í huga:
  • Staðarreglur hafa sömu stöðu og golfreglurnar fyrir vioðkomandi keppni eða völl.
  • Takmarka ætti notkun staðarreglna eins og hægt er og eingöngu nota staðarreglur til að fást við aðstæður og viðmið sem lýst er í hluta 8.
  • Ekki er mælt með því að breyta nokkurri staðarreglu fyrir keppni eftir að keppni er hafin í höggleik, nema breytingin sé gerð áður en nokkur leikmaður gæti hafa orðið fyrir áhrifum vegna breytingarinnar.
Tæmandi lista yfir fyrirmyndir leyfilegra staðarreglna má finna fremst í hluta 8. Staðarreglur sem setja má fyrir keppnir flokkast þannig:
  • Að skilgreina vallarmörk og önnur svæði vallarins ( hlutar 8A-8D).
  • Að skilgreina sérstakar lausnaraðferðir ( hluti 8E).
  • Að skilgreina óeðlilegar vallaraðstæður og hluta vallar ( hluti 8F).
  • Notkun sérstaks útbúnaðar ( hluti 8G).
  • Hver má gefa leikmönnum ráð ( hluti 8H).
  • Hvenær og hvar leikmenn mega æfa ( hluti 8I).
  • Ferli við frestun leiks ( hluti 8J).
  • Leikhraðareglur ( hluti 8K).
  • Ábyrgð vegna skorkorta ( hluti 8L).
  • F yrirmynd staðarreglna fyrir fatlaða leikmenn ( hluti 8M).
D

Skilyrði fyrir heimild leikmanna að nýta reglu 25

Eins og tilgreint er í reglu 25.1, gilda breytingar vegna fatlaðra leikmanna í öllum keppnum, en fötlunarflokkur leikmannsins og keppnisréttur ræður því hvort honum er heimilt að nota breyttu reglurnar sem í reglu 25. Það er ekki endilega hlutverk nefndarinnar á meta rétt leikmanns. Ákvörðun um rétt leikmanns til að nota sértæku reglurnar í reglu 25 getur verið mjög augljós, en kann þó´stundum að vera vafaatriði. Réttur til að nýta reglu 25 byggir á áhrifum fötlunar á möguleika leikmanns að leika golf frekar en ákvarða hvort viðkomandi sé fatlaður. Nefndin getur farið fram á að leikmaður staðfesti fötlun sína til að staðfesta heimild leikmanns til að nota reglu 25. Slík staðfesting gæti verið  læknisvottorð, staðfesting frá opinberri stofnun, skírteini gefið út af heibrigðisstofnun, eða annað viðlíka.  Að auki getur nefndin skilgreint að einungis leikmönnum sem geta framvísað slíkum vottorðum eða skilríkjum sé heimild þáttaka í keppninni (þar sem leikmenn nýta breyttu golfreglurnar í samræmi við fötlun sína). Sem dæmi um skírteini sem nefndin getur sett sem skilyrði fyrir þátttöku í keppninni og notað til að meta fötlunarflokk leikmanna eru EDGA WR4GD leikmannaskírteini og EDGA aðgangsskírteini (European Disabled Golf Association). Þessi skírteini eru gefin út af EDGA og er umsóknarferli um EDGA skírteini kylfingum að kostnaðarlausu. Frekari upplýsingar má finna á vefslóðinni: www.edgagolf.com/online/pass/pass_info.php
E

Að skilgreina æfingasvæði

Á mörgum völlum eru sérstök æfingasvæði, svo sem æfingabásar og æfingaflatir fyrir pútt, vipp og leik úr glompu. Leikmönnum er heimilt að æfa á þessum svæðum, hvort sem þau eru innan eða utan vallarmarka. Mælt er með því að öll æfingasvæði sem eru innan vallarins séu tilgreind í staðarreglum til að skýra hvort leikmenn megi æfa þar fyrir og eftir umferð. Nefndin kann að þurfa að skilgreina mörk þessara svæða til að takmarka hvar leikmenn mega æfa. Nefndin getur einnig breytt heimildunum um hvenær og hvar æfing er leyfð:
  • Staðarregla getur heimilað æfingu á afmörkuðum og skilgreindum hlutum vallarins, til dæmis þegar völlurinn býr ekki yfir varanlegu æfingasvæði. Í þessum tilvikum er þó mælt gegn því að leikmönnum sé heimilað að æfa á flötum eða í glompum vallarins.
  • Staðarregla getur heimilað almenna æfingu á vellinum, til dæmis:
    • Ef keppnin hefst síðla dags og nefndin vill ekki takmarka möguleika leikmanna á að leika völlinn fyrr um daginn, eða
    • Ef leik hefur verið frestað og það væri hagkvæmara að leyfa leikmönnunum að slá nokkur högg á vellinum, frekar en að ferja þá til baka á æfingasvæðið.
  • Regla 5.2 fjallar um hvenær æfing er leyfð eða bönnuð fyrir eða á milli umferða í keppni. Nefndin getur þó sett staðarreglu til að breyta þessu (sjá fyrirmynd staðarreglu I-1).
  • Regla 5.5 heimilar nefndinni að setja staðarreglu til að banna æfingu á eða nærri flöt síðustu holu (sjá fyrirmynd staðarreglu I-2).
F

Teigar og holustaðsetningar

(1)
Að velja teiga
Þegar velja á af hvaða teigum skuli leikið í keppninni ætti nefndin að vega hönnunareinkenni vallarins við styrkleika keppendanna. Til dæmis væri ekki skynsamlegt og myndi hafa mikil áhrif á leikhraða að velja teiga sem krefðust þess að boltinn flygi svo langt yfir karga að margir keppendanna réðu ekki við það nema með mjög góðum höggum. Nefndin getur ákveðið að nota ólíka teiga í keppnum en notaðir eru í almennum leik. Sé þetta gert ætti nefndin að taka mið af reglum eða leiðbeiningum World Hadicap System TM forgjafarkerfisins varðandi hvaða áhrif þetta getur haft á vallarmat (Course RatingTM). Annars kunna skorin ekki að vera hæf til forgjafar. Færa má teiga milli umferða, þar á meðal þegar tvær umferðir eru leiknar sama dag. Góð venja er að setja lítið merki, t.d. málningarpunkt, aftan við eða undir teigmerkin til að tryggja að hægt sé að setja þau aftur á sinn stað, væru þau hreyfð. Þegar leiknar eru margar umferðir er hægt að nota ólíkan fjölda punkta fyrir hverja umferð. Ef keppni er haldin á velli þar sem engin skilti auðkenna holurnar eða ef nefndin hefur ákveðið að leika völlinn í óhefðbundinni röð ætti að setja upp skilti til að auðkenna holurnar.
(2)
Að velja holustaðsetningar
Nýjar holur ætti að skera daginn sem keppnin hefst og svo á öðrum tímum sem nefndin telur nauðsynlegt, að því gefnu að allir leikmenn umferðar leiki allar holur með sömu staðsetningu. En þegar umferð mun verða leikin á fleiri en einum degi (eins og þegar leikmenn geta valið hvaða dag þeir taka þátt), má nefndin tilkynna leikmönnum í keppnisskilmálum að holur og teigar muni verða mismunandi staðsettir milli daga keppninnar. En innan sama dagsins muni allir leikmenn leika hverju holu með sömu staðsetningu og teiga eins upp setta. Holustaðsetningar hafa umtalsverð áhrif á skor og leikhraða í keppnum. Mörg atriði koma til skoðunar þegar holustaðsetningar eru valdar. Áhersla er lögð á eftirfarandi:
  • Hafa ætti getu leikmannanna í huga þegar holustaðsetningar eru valdar, þannig að holustaðsetning sé ekki svo erfið að hún hægi verulega á leik eða svo auðveld að hún sé ekki áskorun fyrir betri leikmennina.
  • Hraði flatanna er mikilvægur þáttur við val holustaðsetninga. Tiltekin holustaðsetning getur verið góð á hægri flöt en verið of erfið þegar hraði flatanna eykst.
  • Nefndin ætti að forðast að skera holu í miklum halla þar sem boltinn getur ekki stöðvast. Þegar landslag flatarinnar leyfir ætti holan að vera staðsett þannig að tveggja til þriggja feta svæði umhverfis holuna sé tiltölulega lárétt svo að pútt sem eru af réttum hraða stöðvist við holuna.
Því til viðbótar er vert að:
  • Staðsetja holur þar sem nægt svæði sé á flötinni milli holunnar og fremri hluta og hliða flatarinnar, með tilliti til innáhöggs á flötina. Til dæmis er almennt ekki mælt með því að setja holuna rétt aftan við stóra glompu þegar flestir leikmenn þurfa langt innáhögg á flötina.
  • Hafa jafnvægi í holustaðsetningum á vellinum, þ.e. á vinstri og hægri hlið, miðju, framarlega og aftarlega.
G

Ráslisti, ráshópar og rástímar

(1)
Ráslistinn
Í holukeppnum er ráslistinn notaður til að stilla upp keppnistrénu í heild sinni og hvaða leikmenn muni mætast í leikjum fyrstu umferðar. Dráttinn má framkvæma á ýmsa vegu, svo sem:
  • Með hendingu – Leikmenn eru dregnir út með hendingu og raðað á listann í þeirri röð sem þeir dragast.
  • Undankeppni – Leikmenn gætu leikið eina eða fleiri umferðir í undankeppni. Leikmönnunum er svo raðað á listann eftir skori.
  • Forgjöf – Leikmönnum er raðað á listann eftir forgjöf þannig að leikmaðurinn með lægstu forgjöfina myndi leika við þann með hæstu forgjöfina í fyrstu umferð, sá með næst lægstu forgjöfina við þann með þá næst hæstu og svo framvegis.
  • Forgangur – Ákveðnum leikmönnum, svo sem ríkjandi sigurvegara, er raðað á ákveðna staði á listanum en öðrum samkvæmt hendingu eða með undankeppni.
Þegar undakeppni fer fram, ætti að raða þannig að tveir efstu leikmennirnir séu sitt hvoru megin á listanum og svo áfram þannig niður listann, eins og sýnt er í neðangreindri töflu. Við röðun á keppnislista er hægt að skera úr um jafntefli í undankeppni, fyrir önnur sæti en það síðasta, þannig:
  • Í hvaða röð skorum var skilað, þannig að fyrsta skor sem var skilað fái lægsta lausa númer og svo framvegis.
  • Samanburður skorkorta.
  • Handahófsúrdráttur meðal leikmannanna sem voru jafnir á tilteknu skori.
Ef fleiri en einn leikmaður eru jafnir í lokasæti úrdráttarins getur nefndin kosið að hafa umspil eða bæta við annarri umferð í holukeppni til að fækka keppendum í jafna tölu. Þetta ætti að tilgreina í keppnisskilmálum. Í sumum keppnum kann nefndin að velja að fastsetja ríkjandi titilhafa. Þegar þetta er gert er ríkjandi titilhafi oft settur í fyrsta eða annað sæti. Nefndin ætti einnig að ákveða hvort hún muni leyfa titilhafanum að leika í undankeppni og, ef það er leyft, þá fyrirgeri þeir sæti sínu. Margir drættir (riðlar eða deildir) Þótt í mörgum keppnum leiki allir leikmenn við alla aðra leikmenn getur nefndin stundum valið að skipta keppninni upp í riðla eða deildir. Tilgangurinn getur til dæmis verið að leikmenn á svipuðu getustigi keppi hver við annan eða að fá fram fleiri en einn sigurvegara. Röðun í slíka riðla getur verið eftir forgjöf, undankeppni eða gerð með öðrum aðferðum sem nefndin ákvarðar. Nefndin ætti að tilgreina fyrirkomulag röðunarinnar í keppnisskilmálum. Þótt raða megi í riðlana eftir forgjöf þarf keppnin sjálf innan riðlanna ekki að vera forgjafarkeppni, því allir leikmennirnir ættu að vera á svipuðu getustigi. Í holukeppni er skynsamlegt að hafa fjölda leikmanna þannig að ekki þurfi að koma til yfirsetu og helst þannig að allir leikmenn leiki jafn marga leiki í útsláttarkeppni, svo sem 8, 16, 32, 64 eða 128 leikmenn. Ef ekki er nægur fjöldi leikmanna til að fylla lokariðilinn ættu leikmenn að fá yfirsetu í fyrstu umferð eftir þörfum. Ekki er nauðsynlegt að sami fjöldi leikmanna sé í öllum riðlum. Til dæmis gæti fyrsti riðillinn haft 32 leikmenn en aðrir riðlar 16 leikmenn.
(2)
Rástímar og ráshópar
Nefndin getur ákvarðað rástíma og ráshópa eða leyft leikmönnum að velja sér rástíma. Þegar nefndin leyfir leikmönnum að velja sér rástíma hefur slíkur rástími sömu stöðu og rástími sem nefndin hefur ákveðið (sjá reglu 5.3a). Að mörgu er að hyggja við að ákveða fjölda leikmanna í ráshópi og tíma á milli ráshópa. Þegar rástímar og ráshópar eru ákveðnir er mikilvægt að taka tillit til leikhraða, auk þess tíma sem er aflögu til leiks. Tveggja manna ráshópar munu leika hraðar en þriggja eða fjögurra manna ráshópar. Bil á milli rástíma getur verið styttra fyrir smærri ráshópa. Þegar nefndin velur að ræsa leikmenn af fleiri en einum teig (svo sem á holu 1 og 10), er mikilvægt að tryggja að leikmenn þurfi ekki að bíða lengi ef þeir koma að hinum teignum áður en síðasti ráshópur hefur verið ræstur. Sjá hluta 4A(1) varðandi bil milli ráshópa.  Þegar holukeppni verður leikin yfir lengri tíma og leikmönnum er heimilt að komast að samkomulagi um hvenær þeir leiki á því tímabili ætti nefndin að:
  • Ákveða lokadagsetningu og tíma þar sem hverjum leik þarf að vera lokið.
  • Ákveða hvernig úrslit leiks verða ákvörðuð ef leikmenn ljúka leiknum ekki á réttum tíma, svo sem með frávísun beggja leikmannanna eða með því að hleypa fyrri leikmanninum eða seinni leikmanninum á ráslistanum áfram í næstu umferð.
  • Nefndin getur einning ákveðið að lengja frestinn vegna jafnteflis ef ríkar ástæður eru fyrir því. Ef nefndin gerir það, þá er það hlutverk nefndarinnar að ákveða heimildir varðandi slíkan frest og túlkun þeirra.
Í holukeppni setur nefndin upp ráslistann sem sýnir hverjir muni mætast í hverjum leik eða ákveður á annan hátt hvernig leikjum er stillt upp. Best er ef hægt er að ræsa út hvern leik fyrir sig, en stundum þurfa tveir leikir að vera ræstir út saman.
(3)
Ritarar
Í höggleik þarf leikmaður eða lið alltaf að hafa einhvern annan en leikmanninn eða liðsfélaga til að skrá skorkortið. Nefndin getur ákveðið eða takmarkað hverjir megi vera ritarar fyrir hvern leikmann með því að ákveða að ritarinn verði að vera leikmaður í sömu keppni og ráshópi, leikmaður með forgjöf, eða á einhvern annan hátt. Í leikformum þar sem tveir eða fleiri samherjar keppa sem lið (til dæmis í fjórmenningi eða fjórleik) mega þeir ekki vera ritarar fyrir sitt lið. Þegar fjöldi liða er oddatala í keppni samherja getur nefndin þurft að finna ritara fyrir lið sem leikur eitt í ráshópi eða valið að hafa ráshóp með þremur liðum.
(4)
Rásstaðir
Nefndin getur skilgreint sérstakan stað við eða nærri fyrsta teig þar sem leikmenn verða að vera mættir og tilbúnir til leiks á rástíma sínum (sjá reglu 5.3a). Þetta er hægt að gera með málaðri línu á jörðinni, með böndum eða á einhvern annan hátt.
H

Leikhraðareglur

Nefndin getur sett eigin leikhraðareglur í formi staðarreglu (sjá reglu 5.6b). Eðli slíkra reglna þarf að ráðast af hversu margir meðlima nefndarinnar eru tiltækir til að framfylgja þeim (sjá hluta 8K). Leikhraðareglur geta m.a. innihaldið:
  • Hámarkstíma til að ljúka umferð, holu, tilteknum fjölda hola eða höggi.
  • Skilgreiningu á hvenær fyrsti ráshópurinn er úr stöðu og hvenær aðrir ráshópar eru úr stöðu með tilliti til ráshópsins á undan.
  • Hvenær og hvernig ráshópur eða einstakur leikmaður kann að vera undir eftirliti eða í tímamælingu.
  • Hvort og hvenær leikmenn séu aðvaraðir um að þeir séu tímamældir eða hafi fallið á tímamælingu.
  • Uppbyggingu víta fyrir brot á reglunum.
Nefndin er ábyrg fyrir að tryggja að keppnin sé leikin á góðum hraða. Hvað telst góður hraði getur verið breytilegt eftir völlum, heildarfjölda leikmanna og fjölda leikmanna í ráshópi. Til að sinna þessari ábyrgð:
  • Ætti nefndin að setja staðarreglu um leikhraða (sjá reglu 5.6b).
  • Slíkar reglur ættu að minnsta kosti að ákvarða hámarkstíma til að ljúka umferðinni eða hlutum umferðarinnar.
  • Reglurnar ættu að ákvarða víti ef leikmaður fylgir ekki reglunum.
  • Nefndin ætti einnig að gera sér ljóst hvað annað hún getur gert til að hafa jákvæð áhrif á leikhraða. Þar á meðal:
    • Skipulag, svo sem að fækka í ráshópum, auka bil á milli ráshópa, innleiða ræsisbil og setja „uppkalls" aðferðir eða „rennilás" ef tafir myndast á löngum par 3 holum, par 4 holum sem hægt er að slá inn á flöt í teighöggi eða á par 5 holum sem hægt er að ná flöt í öðru höggi.
    • Hugleiða grundvallarbreytingar á uppsetningu vallarins, svo sem með breikkun brauta, lækkun og minni þéttleika karga eða minnka hraða flata. Þegar slíkar breytingar eru gerðar á vellinum, ætti nefndin að skoða reglur eða ráðleggingar í ritum Worl Handicap SystemTM , eða öðrum leiðbeiningum sem forgjafarnefndir starfandi á svæðinu gefa út, til að meta áhrif breytinganna á vallarmatið (Course RatingTM) og fylgja leiðbeiningunum sem þar eru til að gera nauðsynlegar aðlaganir.
I

Hegðunarreglur

Nefndin getur sett eigin reglur um hegðun leikmanna í hegðunarreglum sem útfærðar eru í staðarreglu (sjá reglu 1.2b). Tilgangur slíkra hegðunarreglna er að útlista viðmið hegðunar sem nefndin ætlast til að leikmenn uppfylli meðan þeir leika golf og að refsingar gætu átt við ef þessar reglur eru brotnar. En golfreglurnar tilgreina hvaða aðgerðir leikmaður má eða má ekki viðhafa þegar hann leikur golf og nefndin hefur ekki heimild til að breyta þeim heimildum eða takmörkunum með því að hafa önnur viðurlög í hegðunarreglum. Setji nefndin ekki hegðunarreglur hefur hún takmarkaða möguleika á að víta leikmenn samkvæmt reglu 1.2a fyrir óviðeigandi hegðun. Eina refsingin samkvæmt þeirri reglu vegna athafna gegn anda leiksins er frávísun (sjá hluta 5I(5) varðandi nánari upplýsingar).
(1)
Að setja hegðunarreglur
Við gerð hegðunarreglna ætti nefndin að huga að eftirfarandi:
  • Þegar sett eru mörk á athafnir leikmanns, eða þær bannaðar í hegðunarreglum, ætti nefndin að taka mið af ólíkri menningu leikmanna. Til dæmis getur eitthvað sem telst óviðeigandi í einum menningarheimi verið ásættanlegt í öðrum.
  • Uppbyggingu víta sem beitt verður fyrir brot á reglunum (sjá hluta 5I(4) sem dæmi).
  • Hver hafi refsivaldið. Til dæmis hvort einungis tilteknir nefndarmenn hafi leyfi til að beita slíkum vítum, hvort tiltekinn lágmarksfjöldi nefndarmanna þurfi sameiginlega að taka slíka ákvörðun, eða hvort allir nefndarmenn hafi leyfi til slíkra ákvarðana.
  • Hvort áfrýjun verði heimil.
(2)
Heimil og óheimil notkun á hegðunarreglum
a. Heimilt Nefndin getur látið eftirfarandi vera hluta hegðunarreglna:
  • Tilgreina óásættanlega hegðun sem leikmönnum kann að vera refsað fyrir á meðan umferð er leikin, svo sem:
    • Að halda vellinum ekki snyrtilegum, t.d. með því að raka ekki glompur eða setja torfusnepla ekki í kylfuför.
    • Óásættanlegur talsmáti.
    • Misbeiting kylfa eða að valda skemmdum á vellinum.
    • Sýna öðrum leikmönnum, dómurum eða áhorfendum vanvirðingu.
  • Banna leikmönnum að fara inn á alla eða tiltekna bannreiti.
  • Takmarkanir á notkun samfélagsmiðla.
  • Setja reglur um klæðaburð.
b. Ekki heimilt Nefndin getur ekki látið eftirfarandi vera hluta hegðunarreglna:
  • Breyta gildandi refsingum samkvæmt golfreglunum, til dæmis að auka refsingu leikmanns, sem lyftur bolta á flöt án þess að merkja legu boltans, úr einu höggi í tvö högg.
  • Setja inn nýjar refsingar fyrir athafnir leikmanns sem tengjast ekki hegðun hans, til dæmis má nefndin ekki nota hegðunarreglurnar til þess að setja inn óheimila staðarreglu, svo sem að refsa leikmanni fyrir að leika bolta yfir eignir sem eru utan vallar, eða setja reglu sem refsar leikmanni fyrir að tilkynna ekki öðrum leikmönnum um að hann ætli að lyfta boltanum til að bera kennsl á boltann.
  • Veita leikmanni vítahögg fyrir óviðeigandi hegðun fyrir eða milli umferða. En nefndin má beita öðrum viðurlögum, svo sem að draga leikmanninn úr keppninni eða banna leikmanninum að taka þátt í síðari keppnum.
  • Ekki væri viðeigandi að refsa leikmanni samkvæmt hegðunarreglunum fyrir brot áhangenda eða fjölskyldumeðlima á reglum fyrir áhorfendur. Til dæmis ætti ekki að refsa leikmanni í unglingakeppni fyrir brot áhorfenda á banni við að fjölskyldumeðlimir gangi á brautum vallarins.
(3)
Að ákvarða refsingar fyrir brot á reglunum
Þegar viðlög og refsingar eru ákveðin ætti nefndin að huga að eftirfarandi:
  • Hvort aðvaranir eru veittar áður en vítum eða öðrum refsingum er beitt.
  • Hvort refsing felist í agaviðurlögum eða vítum samkvæmt golfreglunum.  Agaviðurlög sem nefndin getur beitt geta falið í sér bann við þátttöku í einni eða fleiri keppnum sem nefndin stendur fyrir í framtíðinni eða kröfu um að leikmaður leiki á tilteknum tíma dags. Slík viðurlög eru ótengd golfreglunum og það er á verksviði nefndarinnar að ákveða og framfylgja viðurlögunum.
  • Hvort refsing fyrir hvert brot verði eitt vítahögg, almenna vítið eða hvort víti verði stighækkandi, svo sem eitt högg fyrir fyrsta brot og almenna vítið fyrir næsta brot. Nefndin ætti ekki að ákvarða aðrar tegundir refsinga sem myndu hafa áhrif á skor leikmanns.
  • Hvort víti verði sjálfkrafa beitt í hvert sinn sem leikmaður brýtur einhverja reglnanna eða hvort ákvörðun um víti sé sett í hendur nefndarinnar.
  • Hvort brot á hegðunarreglum flytjist milli umferða þegar keppnin er fleiri en ein umferð og refsingin fari stighækkandi fyrir ítrekuð brot. Til dæmis, í 36 holu keppni, þar sem fyrsta brot er áminning og annað brot er eitt högg í víti, má nefndin flytja refsingar úr umferð 1 yfir á umferð 2.
  • Hvort ólíkum vítum verði beitt eftir því hvaða hlutar reglnanna eru brotnir.
  • Hvort hegðunarreglurnar eigi líka við um kylfubera leikmanns. Hegðun kylfubera telst sjálfvirkt flytjast á leikmanninn samkvæmt reglu 10.3c, þess vegna verður nefndin að tilgreina sérstaklega í hegðunarreglunum ef einhver hluti þeirra eigi ekki að gilda fyrir kylfubera.
(4)
Dæmi um uppbyggingu víta fyrir brot á hegðunarreglum
Eftirfarandi fyrirmynd uppbyggingar refsinga gefur dæmi um hvernig nefndin getur valið að refsa fyrir brot á hegðunarreglum í staðarreglunum. Nefndin getur kosið að útfæra slíka vítauppbyggingu án aðvörunar eða áminningar fyrir fyrsta brot, eða hún getur ákvarðað ólíkar refsingar fyrir brot á tilteknum hlutum reglnanna. Til dæmis, tiltekin brot gæti þýtt eitt vítahögg, meðan önnur brot væru almenna vítið. Fyrirmynd vítauppbyggingar 1
  • Fyrsta brot hegðunarreglna - aðvörun eða áminning nefndar.
  • Annað brot - eitt vítahögg.
  • Þriðja brot – almennt víti.
  • Fjórða brot eða alvarlegar misgjörðir – frávísun.
Fyrirmynd vítauppbyggingar 2
  • Fyrsta brot hegðunarreglna - eitt vítahögg.
  • Annað brot - almennt víti.
  • Þriðja brot eða lavarlegar misgjörðir - frávísun.
Ef brot á sér stað milli tveggja hola, þá færist refsingin á næstu holu.
(5)
Andi leiksins og alvarleg hegðun
Samkvæmt reglu 1.2b getur nefndin veitt leikmanni frávísun fyrir alvarlegar misgjörðir sem eru gegn anda leiksins. Þetta á við hvort sem settar hafa verið hegðunarreglur fyrir keppnina eða ekki. Þegar ákveðið er hvort leikmaður hafi gerst sekur um alvarlegar misgjörðir, ætti nefndin að íhuga hvort hegðun leikmannsins sé svo langt frá tilætlaðri hegðun í golfi að réttlætanlegt sé að beita skuli þyngstu refsingu og vísa leikmanninum úr keppni. Dæmi um athafnir sem gætu réttlætt frávísunarvíti samkvæmt reglu 1.2a má finna í skýringum 1.2a/1.
J

Upplýsingar til leikmanna og dómara

(1)
Staðarreglur
Nefndin ætti að tryggja að allar staðarreglur séu aðgengilegar leikmönnum, hvort sem er á sérstöku blaði á fyrsta teig (stundum kallað „ábendingar til leikmanna“), á skorkorti, tilkynningatöflu eða á vefsíðu vallarins. Ýmsir aðilar sem halda margar keppnir útbúa skjal sem inniheldur staðarreglur sem gilda í öllum þeirra keppnum. Venjan er að slíkt skjal sé prentað á þykkan pappír og er þekkt sem „Staðlaðar staðarreglur“. Ef leikmenn eiga að leika með boltum sem eru á lista yfir samþykkta bolta (sjá fyrirmynd staðarreglu G-3) eða nota kylfur sem eru á lista yfir samþykkt teigtré (sjá fyrirmynd staðarreglu G-1) eða sem uppfylla kröfur um grópir og rákir (sjá fyrirmynd staðarreglu G-2) ætti nefndin að íhuga að hafa þessa lista aðgengilega fyrir leikmenn eða að veita leikmönnum aðgang að viðeigandi gagnagrunnum.
(2)
Ráshópar og rástímablöð
Útbúa ætti rástímablöð sem sýna ráshópa og rástíma þeirra og setja upp þar sem leikmenn geta séð þau. Þótt leikmönnum séu oft sendar rástímaupplýsingar á rafrænu formi, eða þeir geta séð þær á vefsíðu, ættu upplýsingarnar einnig birtar á vellinum svo leikmenn geti staðfest rástíma sinn.
(3)
Holustaðsetningablöð
Nefndin kann að vilja afhenda leikmönnum blöð sem sýnir staðsetningar holanna á flötunum. Blöðin geta sýnt einfalda hringi með fjarlægð holunnar frá fremri brún flatarinnar og nálægri hlið, einfaldan lista með tölunum einum eða nákvæmari mynd af flötinni og umhverfi hennar, ásamt staðsetningu holunnar.
(4)
Skorkort með úthlutun forgjafarhögga
Nefndin ber ábyrgð á að birta á skorkortinu eða annars staðar (t.d. við fyrsta teig) röð holanna þar sem forgjafarhögg eru veitt eða þegin. Þessi röð er notuð í holukeppni með forgjöf og í sumum formum forgjafarkeppna höggleiks, svo sem fjórleik, Stableford, hámarksskori (þar sem hámarksskorið er tengt nettó skori leikmannsins) og par/skolla keppnum. Varðandi leiðbeiningar um röð forgjafarhögga, leitið upplýsinga í reglum forgjafarnefndar eða tilmælum World Handicap SystemTM forgjafarkerfisins. Holukeppni – Í holukeppni með forgjöf ætti nefndin að skýra eftirfarandi í keppnisskilmálum:
  • Hvort notaður verði fullur munur milli forgjafa eða tiltekið hlutfall munarins.
  • Taflan með úthlutun forgjafarhögga sem notuð verður til að ákvarða röð holanna þar sem leikmenn munu gefa eða þiggja forgjafarhögg.
Ef nefndin hefur heimilað að leikir hefjist annars staðar en á 1. holu getur hún breytt töflunni fyrir úthlutun forgjafarhögga í slíkum leikjum. Höggleikur - Í keppnum með forgjöf ætti nefndin að ákvarða úthlutun forgjafarhögga í samræmi við reglur eða leiðbeiningar World Handicap SystemTM forgjafarkerfisins eða viðkomandi forgjafarnefndar.
(5)
Leikhraðareglur og hegðunarreglur
Eintök af leikhraðareglum og hegðunarreglum ættu að vera tiltæk fyrir leikmenn áður en keppnin hefst. Ef leikmenn þekkja ekki til þessara reglna kann nefndin að vilja fara yfir þær með leikmönnum fyrir keppnina. Þjálfa ætti dómara og aðra sem munu framfylgja þessum reglum og afhenda þeim viðbótarefni svo sem tímamælingarblöð eða handrit með tilteknu orðalagi sem þeir ættu að nota þegar þeir aðvara leikmenn eða tilkynna þeim um hugsanleg brot.
(6)
Rýmingaráætlun
Allar nefndir ættu að hugleiða hvernig völlurinn verður rýmdur ef þess þarf vegna mjög slæms veðurs eða annars neyðarástands. Ef þörf er talin á því er hægt að útbúa rýmingaráætlun og dreifa henni til keppenda.
(7)
Leiðbeiningar og útskýringar á bestu leið til að fyrirbyggja "bakstopp"
"Bakstopp" er það oft kallað sem lýsir eftirfarandi aðstæðum í höggleik.  Leikmaður skilur bolta sinn eftir á flötinni nálægt holu, án samráðs við annan leikmann, þannig að hann gæti aðstoðað leikmann, sem á eftir að leika inn á flöt, þannig að hann sá leikmaður hagnist á að boltinn rekist í kyrrstæða boltann. Þar sem ekkert samkomulag hefur verið gert um að skilja bolta þannig eftir á flöt til aðstoða einhvern leikmann, þá er engin refsing samkvæmt reglunum (sjá reglu 15.3a). Hinsvegar hafa R&A og USGA litið þannig á að "bakstopp" taki ekki tillit til allra annarra þátttakenda í keppninni og gefi mögulega leikmanninum forskot fram yfir aðra leikmenn með möguleikanu á "bakstoppi". Niðurstaðan er því sú að eftirfarandi leiðbeiningar og skýringar séu tiltækar fyrir nefndina til að veita leikmönnum til að koma í veg fyrir bakstopp:
  • Í höggleik þar sem allir keppendur eiga hluta að máli og geta ekki gætt sinna hagsmuna alls staðar, er mikilvægt að allir leikmenn axli þá ábyrgð í sameiningu.
  • Því ætti leikmenn í höggleik, þar sem möguleiki er á að bolti á flöt aðstoði annan leikmann í innáhöggi sínu, báðir að tryggja að leikmaðurinn sem á boltann nálægt holunni merki og lyfti sínum bolta áður en hinn leikmaðurinn slær sitt högg inn á flöt.
  • Ef allir leikmenn fylgja þessum leiðbeiningum, þá tekst að gæta hagsmuna allra þeirra sem þátt taka í keppninni.
SKOÐA FLEIRA
Hluti 1Hlutverk nefndarinnar
Í golfreglunum er nefndin skilgreind sem sá einstaklingur eða hópur sem er í forsvari fyrir keppni eða völlinn. Nefndin er ómissandi til að leikur fari eðlilega fram. Nefndirnar bera ábyrgð á daglegum leik á vellinum og framkvæmd keppna, sem ætti alltaf að fara fram samkvæmt golfreglunum. Þessum hluta opinberu leiðbeininganna er ætlað að veita leiðbeiningar til nefndanna um hvernig þær geti best sinnt þessu hlutverki. Þótt mörg verkefna nefndarinnar snúist um að halda skipulagðar keppnir er mikilvægur hluti ábyrgðar nefndarinnar að sjá um völlinn í almennum leik.
Lesa hluta